Óskar og Edda verða fyrir ónæði símadóna

Hjónin Óskar Hallmundsson og Edda Línenring hafa síðustu árin getið sér gott orð sem snillingar í fluguhnýtingum og hafa selt grimmt flugur sem hafa gefið vel. En það skyggir nokkuð á gleðina að þau hafa átt undir högg að sækja vegna nafna sinna.

Óskari segist svo frá: -Þetta byrjaði allt mánaðamótin febrúar mars fyrir svona 12 árum. Þá var hringt í mig á sunnudegi og spurt hvenær ég ætlaði að afhenda verðlaunin. Ég spurði – hvaða verðlaun? – enda kom ég alveg af fjöllum, ég er reyndar í dómnefnd í Félagi fluguhnýtara en okkar árshátíðir eru jú alltaf á haustin. En þá er öskrað í símann: Nú Óskarsverðlaunin! Svo hló maðurinn sérkennilegum hlátri. En svona er búið að hringja á hverju ári síðan, alltaf þegar Óskarsverðlaunin eru, og ég held að þetta sé mest sami maðurinn sem er að hringja.

En nú á dögunum keyrði um þverbak? Já, hann hringdi núna mánuði fyrr en venjulega og spurði hvort ég gæti ekki breytt útsendingartímanum, það hentaði honum betur ef ég gæti flýtt Óskarsverðlaununum um sólarhring, hann gæti þá horft um nóttina og sofið út á sunnudegi. Svo hló hann. Mér fannst þetta ekki fyndið og sagði honum það.

En þetta er ekki allt, er það? Nei, þessi maður er farinn að hringja um helgar, oft seint seint á kvöldin, og spyrja mig hvort ég sé búinn að fá verðlaunin, Edduverðlaunin sko!

Jæja Óskar, en ekki eru allir leiðinlegir sem gantast með nafnið þitt? –Nei, maður getur nú brosað gegnum tárin. Félagi minn, Pálmi Felixson, oft kallaður Gull-Pálminn þó ég skilji ekki afhverju, hann er einn helsti samkeppnisaðili minn í fluguhnýtingunum, við förum oft saman í golf og hann segir oft svona þegar hann vinnur mig: -Þá er maður búinn að vinna enn einn Óskarinn.- Svo hlær hann svona sérstökum hlátri - minnir mig á eitthvað en ég kem honum ekki alveg fyrir mig – og ég hlæ með honum, enda er Gull-Pálminn oft ansi skemmtilegur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir