Simme simmetríski úti að aka

Sigmundur Sigmundsson frá Neðra Gili í Hjaltadal hefur um árabil verið þjakaður af simmetríu sem hefur á stundum gert líf hans óþarflega flókið.

Simme simmetríski skellti sér á Krókinn síðasta sunnudagskvöld,og ætlaði á rúntinn á sínum forláta Toytota Hi-Lux árgerð ’93 eins og hann hefur gert árum saman án undantekninga. En í samtali við Dreifarann kemur fram að ferðin varð honum erfið. -Ég stoppaði þarna á Ábæ til að kaupa mér appelsín og lakkrísrör, tvennt af hvoru að sjálfsögðu, ég geri það alltaf. Og ég man að ég skrensaði aðeins í hálkunni þegar ég kom út á Skagfirðingabrautina og mátti litlu muna að ég hellti úr appelsínflöskunni á flauelsbuxurnar mínar, ég var nefnilega með flöskuna svona á milli læranna skilurðu?

Og hvað svo? –Ég keyrði áfram eftir Skagfirðingabrautinni og þá er mér litið svona til hægri og sé þarna inn í uppljómaða stofu og þar hangir málverk á vegg. Það hékk þarna alveg rammskakkt! Mér varð svo mikið um að ég missti næstum jeppann upp úr hjólförunum. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, þetta sló mig svo gjörsamlega út af laginu að ég renndi bara aftur heim í Neðra Gil. Þegar ég kom þangað þá var ég að velta fyrir mér hvort ég ætti að hringja í manninn sem býr þarna og biðja hann um að rétta myndina á veggnum.

Hringdirðu? –Já, eftir svolitla umhugsun gerði ég það. En það var enginn heima svo ég hringdi í konu sem býr í íbúðinni við hliðina og hún sagði mér að maðurinn hafi farið á sjóinn daginn áður og hann hafi örugglega gleymt að slökkva ljósin í stofunni áður en hann fór. Og hann er hérna ... hann ... hann er á frystitogara.

Hann verður þá lengi frá? Já. Þetta þýðir bara að ég kemst ekkert á rúntinn næstu þrjár fjórar vikurnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir