„Það verður enginn feitur af engu“

Dóróthea Magnúsdóttir hafði samband við Dreifarann og vildi koma á framfæri skilaboðum til RÚV. Dóróthea hefur í gegnum árin unnið fyrir sér í matreiðslugeiranum en segist hafa verið búin að fá sig fullsadda í því starfi, enda komin á aldur. -Já, ég hef nú bara mest verið að láta gott af mér leiða síðustu tvö árin, verið að gefa í safnanir þó buddan megi nú varla við því að ég fari svona illa með peninginn.

En hvers vegna ertu að hringja í Dreifarann Dóróthea? -Það er út af þessum börnum sem er alltaf verið að sýna í sjónvarpinu.

Hvaða börnum? -Nú fátæku börnunum í Afríku. Það er alltaf verið að sýna okkur, blásaklausum áhorfendum RÚV, þessi blessuðu börn og oftar en ekki kviknakin.

Og hvað? -Nú þetta er nú oftar en ekki sýnt í fréttunum sem eru jú þegar allt almennilegt fólk er að borða kvöldmat... nú eða kvöldkaffið. Maður missir alveg lystina og ekki bætir úr skák þegar foreldrarnir eru kannski sýndir nánast naktir líka. Hvar eru eiginlega gallabuxurnar sem ég gaf vorið 2009? Nei, maður á bara ekki orð. En það er nú alveg það minnsta sem þeir í Sjónvarpinu geta gert er að sýna börnin sæmilega til höfð.

Já þú segir það. En hefur þú verið dugleg að safna handa hungruðu börnunum í Afríku? -Hungruðu!? Já væni minn, ég er sko aldeilis búinn að setja ríflega í þessar dósir og safnanir. En þetta er bara plat. Ég sé ekki annað en að þessi börn hafi það bara alltof gott. Maður er að sjá myndir af börnunum með útblásnar vambir, þau eru hreinlega að springa...

 ...Nei heyrðu nú Dóróthea, börnin eru uppblásin vegna vannæringar... -Heyrðu sjálfur, ég er nú með augu góði og ég sé það sem ég sé! Ég hef unnið í eldhúsi í fleiri ár og ég veit mínu viti. Það verður enginn feitur af engu!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir