Útrásin hafin

 

Vilti gaffal, Brán?

Með ægilegu stríðsópi og vopnaskaki hélt A-lið Molduxanna af stað til Bretlandseyja í víking.  Áður hafði hið 3 tonna orustuskip Þórður kakali verið hlaðinn vistum og búnaði af slíkri gnótt að borðhækka varð skipið.  

Skipherrann gerir liðskönnun áður en haldið er í sigurför vígahersins til Bretlands

Veður var ágætt er siglt var út Fjörðinn,  norðvestan stórhríð með 14 vindstigum og 5 metra ölduhæð. Til að sýna fyrirlitningu á brán og darling og öðrum óvinveittum öflum, sigldi skipherrann yfir Innstalandsskerin svona til að árétta styrk innrásarflotans. 

Haft er fyrir satt að Pétur mikli hafi falið sig bak við Elínarhólmann og sigldi með kakalanum til Orkneyja  með víkingaöl  í lestum sínum.  Liðsmenn voru í ljómandi stríðsskapi, albúnir til að lumbra á breskum óvinum, enda er málstaður okkar göfugur og réttlátur. Bitið var í skjaldarrendur og Æðiskáldið þrumaði fram drápu sem blés mönnum enn meiri kjark í brjóst. Skáldið kvað úr munni fram:

 

Alfreð æðiskáld flytur drápu sem blés mönnum kjark í brjóst

Alvæpni við veljum
 vænir landsins synir.
 Breta nokkra brjótum
 bak á aftur vakrir.
 Skjótum nokkrum spjótum
 smyrjum blóð á verjur.
 Strax við Engilsaxa
 söxum skjótt með öxum.

 Víkings augun vökul
 vilja rudda mylja.
 Vígamenn í vogum
 vegum mann og annan.
 Handverk skulum vanda
 vinna á villimönnum.
 Sigur munum segja
 og sögu í Uxa bögum.

Burt með Brán

Illgjörn smámenni hér um slóðir og Gróa á leiti hafa flumbrað með að kakalinn hafi stefnt á Kolbeinsey eftir að Skagatá sleppti. Uxar eru vanir að detta úr háum söðlum, enda andleg og líkamleg stórmenni.
Það vakti athygli að Geirmundur heljarmave var ekki á skipsfjöl frekar en Ásmundur minkaskítur,  Sveinn litli, Kobeinn úngi eða Jóhann Sigmarsson.  Þetta er hulduherinn sem þegar hefur fyrir misskilning tekið land við Hofsós og mun þar vinna að skemmdarverkum á nýju sundlauginni til stuðnings meginhernum við innrásina  í væthol og parlamentið við teimslækinn og bökkingham skálann aðeins ofar. 

Það skal enginn kalla okkur terorista

Skemmtilegasta verkefnið verður að brjóta niður stein fyrir stein, illræmt dómshús breta, óld beilí þar sem spilltir dómarar hafa níðst á varnarlausum fátæklingum um langa hríð og endurspeglar sú stofnun þjóðarsál breska smáríkisins.
Nú munu enskir upplifa hryllinginn í annað sinn frá því er Vilhjálmur bastarður gekk á land í Bretlandi og gjörsigraði heimavarnarlýðinn hvar sem hann fór.

Á. G. -Nr. 1955

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir