Vill ekki að fólk horfi heim til sín

Íbúi á Blönduósi hefur óskað eftir því að fá að setja upp skilti við einbýlishús sitt, þar sem tekið er fram að vegfarendur hafi ekki leyfi til að horfa í áttina að húsnæði eða lóð mannsins. Mun það vera einstakt, að fólk vilji verja friðhelgi síns einkalífs með þessum hætti.

Íbúinn, sem ekki vill láta nafns síns getið á þessu stigi málsins, sendi inn erindi til Blönduósbæjar, þar sem hann óskaði eftir þessu. Málið er nú til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Dreifarinn náði sambandi við umræddan aðila og spurði hann hvers vegna hann óskaði eftir þessu. –Það er ósköp einfaldlega út af því að ég þoli ekki þegar fólk er að keyra hérna fram hjá eða ganga, að það glápi á húsið mitt og lóðina í kring. Mér finnst þetta vera brot á friðhelgi einkalífsins, ég vil fá að vera í friði fyrir fólki og finnst það sjálfsagður réttur minn að banna fólki að horfa heim til mín, sagði íbúinn við Dreifarann.

Hann bætti við að sumu fólki finndist húsið hans líkjast klósetti, án vatnskassans, en það kæmi honum bara einum við hvernig húsið hans væri og það réttlætti það ekki að fólk væri síglápandi á húsið og þar með inn í það.

Hjá Blönduósbæ fengust þær fréttir að málið væri í vinnslu innan bæjarkerfisins, en þar væri fólk í talsverðum vanda hvernig taka ætti á svona málum, enda einstakt í sinni röð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir