13,5 milljónir úr Framkvæmdasjóði ferðamálastaða á NLV
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um fyrstu úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2015. Að þessu sinni fengu 50 verkefni styrk fyrir 175,7 milljónir króna, til hönnunar og framkvæmda á ferðamannastöðum. Þar af fóru 13,5 milljónir til eftirfarandi fjögurra verkefna á Norðurlandi vestra:
Blönduósbær - Hrútey, fólksvangur - uppbygging áningastaðar. Kr. 1.780.000,- styrkur til skipulagsvinnu og undirbúnings vegna uppbyggingar áningarstaðar í Hrútey í Blöndu. Markmið styrkveitingar er að bæta öryggi og auka aðgengi að Hrútey.
Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði - Fosslaug-Reykjarfoss í Skagafirði Kr. 600.000,- styrkur til að ljúka við heildarhönnun á svæðinu í kringum Fosslaug og Reykjafoss í Skagafirði. Markmið styrkveitingar er að vernda viðkvæma náttúru fyrir átroðningi.
Húnavatnshreppur - Þrístapar-Ólafslundur Kr. 1.680.500,- styrkur til að vinna deiliskipulag. Markmið styrkveitingar er styðja við heildarhönnun svæðisins, verndun náttúru- og menningaminja auk þess að styðja við framtíðaráform um aukna grunnþjónustu.
Ósafell ehf. – Hvítserkur, Fyrri áfangi Kr. 9.500.000,- styrkur til framkvæmda við bílastæði og göngustíga við Hvítserk. Markmið styrkveitingar er að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn og styðja þannig við verndun þessa aðalviðkomustaðar landssvæðisins.
Alls bárust alls 103 umsóknir frá opinberum- og einkaaðilum sem hafa umsjón með ferðamannastöðum víðsvegar um landið. Heildarupphæð styrksumsókna var rúm 831 milljón króna en heildarkostnaður við verkefnin er áætlaður um 2 milljarðar króna. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er nú á sínu fjórða starfsári og hefur frá upphafi úthlutað rúmlega 340 styrkjum að upphæð tæplega 1,5 milljarðar króna.
„Fullyrða má að verulegur árangur hafi þegar náðst af starfi sjóðsins. Víða um land má benda á spennandi verkefni sem orðið hafa að veruleika fyrir tilstuðlan þess fjármagns sem sjóðurinn hefur úthlutað, þótt vissulega sé enn víða þörf á úrbótum,“ segir í fréttatilkynningu frá sjóðnum. Gert er ráð fyrir að næst verði auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum í haust og þá vegna framkvæmda á árinu 2016.