40 FNV nemar tepptir fyrir vestan
Rúmlega 40 nemendur úr FNV, ásamt bílstjóra og þremur fararstjórum bíða átekta við Staðará í Steingrímsfirði, en vegurinn þar fór í sundur rétt norðan við vegamótin þar sem vegur nr 61, Vestfjarðavegur og vegur nr 645, Drangsnesvegur, mætast.
Um er að ræða hóp sem hélt vestur á föstudaginn. Vegna veðurs í dag var lagt af stað laust fyrir kvöldmat frá Ísafirði en stefnan tekin á Hólmavík, þar sem búið var að gera ráðstafanir með mat og gistingu fyrir hópinn. Það var svo rétt áður en rútan kom að áðurnefndum vegamótum að vegurinn brast og mun vera 7-10 metra breiður skurður og mikill straumur í vatninu sem flæðir þar yfir. Þá er afar hvasst í Steingrímsfirði.
Hvorki þykir ráðleggt að ferja hópinn yfir vatnið, þó aðeins séu rúmir 12 km til Hólmavíkur og um 20 km á Drangsnes, né heldur snúa við aftur yfir Steingrímsfjarðarheiði. Samkvæmt upplýsingum frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hefur hópurinn fengið fyrirmæli um að halda kyrru fyrir í rútunni þar til Vegagerðin fer af stað á sjötta tímanum í fyrramálið og gert verður við veginn. Blaðamaður hafði samband við nemendur og foreldri í hópnum og að þeirra sögn amar ekkert að farþegum, þó menn séu vissulega orðnir þreyttir og svangir.
Þannig háttar til á þessum slóðum að eini bærinn sem er í byggð í Staðardal er hinum meginn árinnar þannig að þangað er einnig ófært. Næstu bæir í byggð eru svo norðan Steingrímsfjarðarheiðinnar, á Langadalsströnd. Í fésbókarfærslu frá nemanda í hópnum kemur fram að maður sé á leiðinni til þeirra með mat og verði kominn eftir um einn og hálfan tíma.