4000 íbúa markið handan við hornið í Skagafirði
Íbúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru í dag 3.996, þannig að aðeins vantar fjóra íbúa til þess að sveitarfélagið nái tölunni fjögurþúsund. Um síðustu áramót voru íbúar sveitarfélagsins 3.944, þannig að þeim hefur fjölgað á árinu um samtals 52 og líklegt verður að teljast að íbúarnir verði fljótlega 4000. Sigfús Ingi Sigfússon nýráðinn sveitarstjóri greinir frá þessu í viðtali í þættinum Landsbyggðum á N4, sem tekinn var upp í gærmorgun.
„Það eru mjög margir þættir sem benda til þess að uppgangur sé í Skagafirði, þannig að þessar tölur um fjölgun íbúa koma okkur ekkert á óvart. Það er mikið byggt í Skagafirði, sem er merki þess að fólk hefur trú á svæðinu og útsvarstekjur hafa hækkað talsvert á þessu ári, miðað við sama tíma í fyrra,“ segir Sigfús Ingi.
Þátturinn Landsbyggðir verður sýndur á N4 klukkan 20:30 annað kvöld. Hann verður síðan aðgengilegur hérna á feykir.is á föstudaginn.
/KEP