440 milljón króna nýframkvæmdir við Skagafjarðarhafnir

Frá framkvæmdum við Sauðárkrókshöfn sem nú standa yfir. Mynd: PF.
Frá framkvæmdum við Sauðárkrókshöfn sem nú standa yfir. Mynd: PF.

Skagafjarðarhafnir gera ráð fyrir 440 milljón króna nýframkvæmdum árin 2021-2031 samkvæmt því sem fram kemur í fundargerð umhverfis- og samgöngunefndar svf. Skagafjarðar. Þar af verður 350 m.kr. varið í nýja viðlegukanta, 50 m.kr. í rafbúnað vegna orkuskipta, 20 m.kr. í flotbryggjur og 20 m.kr. í hafnarbakka/uppland og landfyllingar.

Vegagerðin hefur samþykkt fjárveitingu að upphæð 553 m.kr. árin 2021-2024 til Skagafjarðarhafna en einnig er tekið fram í fundargerðinni að tekjur Hafnarsjóðs af aflagjaldi námu 42,5% af heildartekjum hafnarsjóðsins árið 2020.

Jafnframt kemur fram að í nýrri skýrslu sem Hafnasamband Íslands hefur látið taka saman um framkvæmda- og viðhaldsþörf hjá íslenskum höfnum á komandi árum sé áætluð viðhaldsþörf hafna innan hafnasambandsins liðlega tólf miljarðar króna fram til ársins 2025. Þar er endurnýjun og endurbætur á stálþiljum stærsti viðhaldsþátturinn eða upp á nær 5 ma.kr.

Stefnt er að nýframkvæmdum við hafnarmannvirki hérlendis upp á ríflega 67 ma.kr. fram til ársins 2031. Langstærsti hluti þessara áætluðu framkvæmda er vegna nýrra viðlegukanta eða um 27 ma.kr., um 15 ma.kr. eru áætlaðir í fjárfestingar á viðbótar raftengibúnaði vegna orkuskipta og um 10 ma.kr. í landfyllingar fyrir ný hafnarsvæði.

Segir í fundargerð umhverfis- og samgöngunefndar það ljóst skv. skýrslunni að umtalsverðar framkvæmdir séu fyrirliggjandi á vegum Skagafjarðarhafna á næstu árum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir