68 nemendur brautskráðir við hátíðlega athöfn
Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 36. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki síðastliðinn laugardag. Á heimasíðu skólans kemur fram að alls voru það 68 nemendur sem þar voru brautskráðir að viðstöddu fjölmenni.
Við tilefnið fluttu Ingileif Oddsdóttir skólameistari og Þorkell V. Þorkelsson aðstoðarskólameistari ræðu og Ingi Sveinn Jóhannsson flutti ávarp brautskráðra nemenda. Stella Hrönn Jóhannsdóttir flutti ávarp 20 ára stúdenta og Sigrún Hrönn Pálmadóttir flutti ávarp 30 ára stúdenta.
Við athöfnina sagði Ingileif m.a. frá því hvernig skólinn hefur leitast við að laga námsframboð sitt að þörfum íbúa Norðurlands vestra og atvinnulífinu á svæðinu t.d. með námi fyrir fiskvinnslufólk sem hófst sl. haust.
Einnig greindi hún frá þeim miklu breytingum sem munu eiga sér stað næsta haust með styttingu náms til stúdentsprófs í þrjú ár en sú stytting sagði hún eiga eftir að hafa áhrif á allt starfs- og iðnnám. Breytingarnar munu jafnframt hafa veruleg áhrif á störf kennara með nýju vinnumati.
„Á sl. skólaári voru 21% nemenda skólans 25 ára og eldri sem sýnir hve skólinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í menntun fullorðinna þrátt fyrir að þessum hópi sé nú meinað að stunda hefðbundið bóknám í framhaldsskólum,“ sagði hún.
Í máli Þorkels V. Þorsteinssonar aðstoðarskólameistara, sem flutti vetrarannál skólans, kom m.a. fram að nemendur á haustönn voru 510 en 474 á vorönn. Nemendur í fjarnámi voru 116 á haustönn og 142 á á vorönn. Um fjölgun er að ræða frá fyrri árum.
Fjölmargir hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur
Sævar Óli Valdimarsson hlaut sex viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur. Ljósm./fnv.is
Af þeim 68 nemendum sem brautskráðust voru 32 með stúdentspróf og níu með viðbótarnám til stúdentsprófs. Einn nemandi af Nýsköpunar- og tæknibraut, ellefu úr húsasmíði og byggingagreinum, þrír úr rafiðna og bílgreinadeild, tveir sjúkraliðar, tíu nemendur af vélstjórnarbraut og einn nemandi af viðskiptabraut.
Eftirtaldir nemendur fengu viðurkenningar:
Ísak Óli Traustason á félagsfræðabraut hlaut viðurkenningu og þakkir fyrir störf á vettvangi félagsmála nemenda. Hann fékk einnig viðurkenningu frá Landlæknisembættinu fyrir framlag sitt til heilsueflandi skóla.
Sonja Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir í húsasmíði og byggingagreinum hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum húsasmíða.
Sævar Óli Valdimarsson hlaut sex viðurkenningar; viðurkenningu fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar, viðurkenningu frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar, viðurkenningu frá Efnafræðifélagi Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í efnafræði á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar, viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar, viðurkenningu úr Móðurmálssjóði FNV fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi og að lokum viðurkenningu frá Þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.
Arnar Geir Hjartarson á rafiðna og bílgreinadeild hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum rafvirkjunar.
Svala Guðmundsdóttir og Sólveig Erla Valgeirsdóttir á sjúkraliðabraut fengu gjöf frá Gídeonfélaginu á Íslandi.
Brynjar Þór Gunnarsson, Friðrik Andri Atlason, Jón Helgi Sigurgeirsson og Óli Arnar Pétursson á vélstjórnabraut hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum vélvirkjunar og vélstjórn B. Óli Arnar hlaut jafnframt viðurkenningu frá HAAS hátæknisetrinu í Brussel fyrir framúrskarandi námsárangur í CNC – meðferð tölvutækra iðnaðarvéla. Grétar Ingi Pálsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum vélvirkjunar
Atli Einarsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í viðskiptagreinum á stúdentsprófi viðskipta- og hagfræðibrautar. Þess má geta að hann lauk náminu á 2 ½ ári.
Árni Freyr Sigurðsson hlaut fimm viðurkenningar; viðurkenningu fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi viðskipta- og hagfræðibrautar, viðurkenningu frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í erlendum tungumálum á stúdentsprófi, viðurkenningu frá Lionsklúbbi Sauðárkróks úr Minningarsjóði Tómasar Hallgrímssonar fyrir framúrskarandi námsárangur á viðskipta- og hagfræðibraut, viðurkenningu úr Móðurmálssjóð FNV fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi og loks viðurkenningu frá Danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.
Ingi Sveinn Jóhannesson hlaut viðurkenningu og þakkir fyrir störf á vettvangi félagsmála nemenda.
Myndir frá athöfninni má skoða á heimasíðu skólans.