Á Sauðarkrók vantar stærra hótel og meira að gera í bænum
Nemendur 8. bekkjar Árskóla á Sauðárkróki afhentu fyrir skömmu Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra Svf. Skagafjarðar, skjal sem innihélt niðurstöður vinnu þeirra úr heimabyggðarvali. Í valgreininni gerðu nemendur verkefni þar sem reynt var að komast að því hvað væri gott við Sauðárkrók og svo hvað mætti bæta. Það er ýmislegt sem krakkarnir komast að en meðal þess sem þeim þykir gott við Krókinn er hve íþróttaaðstaða er góð sem og hafnarsvæðið og góðir veiðistaðir.
Skjalið sem innihélt niðurstöður úr heimabyggðarvali. Mynd Heba Guðmunds.
Þá finnst þeim ekki slæmt þegar bragðarefurinn er á afslætti á Bláfelli. Það sem hins vegar vantar að þeirra mati er betra tjaldsvæði, ærslabelg, brettabraut, aparólu og fleiri leiktæki. Þá vantar einnig Go-Kart braut og er þá komin ágætis viðskiptahugmynd fyrir einhvern framtakssaman einstakling. Svo vantar í Skaffó: Nörda- og tölvubúð, ísbúð og nammibar og hafa opið á sunnudögum.
Hér fyrir neðan má sjá það sem krakkarnir fundu út hvað væri gott eða vantaði á Sauðárkróki:
Gott:
Íþróttaaðstaða er góð, fótboltavellirnir, íþróttahúsið, skíðasvæðið (sem fer stækkandi) og golfvöllurinn.
Sundlaugin (þegar hún verður tilbúin)
Góð stærð á bænum og gott fólk.
Góð leiksvæði.
Árskóli er góður.
Hafnarsvæðið er gott og góðir veiðistaðir.
Veitingastaðir eru góðir og bakaríið.
Þegar bragðarefurinn er á afslætti á Bláfelli
Nafirnar
KS
Vantar:
Betra tjaldsvæði, ærslabelg, brettabraut, aparólu og fleiri leiktæki.
Dýragarð og gæludýrapössun.
Fleiri og stærri bíósali.
Go-Kart braut.
Betri sundlaug með rennibrautum og SPA.
Betri veiðiaðstöðu eins og t.d. gönguleið ofan á nýja garðinn.
Betra sjúkrahús og nota flugvöllinn.
Stærra hótel og meira að gera í bænum.
Draugasafn.
Fjölbreyttari mat í skólanum og rólur á skólalóðina.
Trampólíngarð og tívolí.
Hafnaboltavöll.
Fleiri ruslatunnur.
Í Skaffó vantar:
Nörda- og tölvubúð, ísbúð og nammibar og hafa opið á sunnudögum.
N1 mætti hafa betri nammibar.
Einnig væri gott ef það væru fleiri verslanir hér eins og t.d. Hagkaup, Bónus og Nettó og jafnvel verslunarmiðstöð.
Skyndibitastaðir eins og t.d. Subway, Dominos og KFC.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.