Á tjá og tundri frumsýnt á fjölum Bifrastar
Nemendafélag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra fumsýnir leikverkið Á tjá og tundri eftir Gunnar Helgason í Bifröst á Sauðárkróki í kvöld, fimmtudagskvöldið 13. nóvember. Í Feyki sem kom út í dag er litið inn á æfingu og rætt við Jóndísi Ingu Hinriksdóttur skemmtanastjóra NFNV um leikritið og segir hún frumsýninguna leggjast vel í mannskapinn. „Það eru allir spenntir og örugglega örlítið stressaðir, en það er alltaf gott að vera smá stressaður. Þá gefur maður allan fram í sýninguna.“
Á tjá og tundri fjallar um Hans og Nínu sem eru ungt par sem er að fara að gifta sig. Í miðri athöfn kemur babb í bátinn sem verður til þess að allt splundrast upp og allir halda í veisluna, en brúðhjónin ekki gift ennþá. Þar fer ýmislegt fram og reynslusögur sagðar, viðeigandi og óviðeigandi. Allir fara að opna sig og margur óþægilegur sannleikur leiddur í ljós. Eiga atvik úr fortíðinni að hafa áhrif á framtíðina? Eiga brúðhjónin meira sameiginlegt en þau héldu? Stóra spurningin er hvort það er ástin sem sigrar að lokum. Persónurnar eru allar skemmtilegar á sinn ólíka hátt. Lögin í leikritinu eru bæði íslensk og erlend en öll fyrsta flokks.
Það verða sex sýningar, frumsýningin í dag, fimmtudag, svo verða sýningar 15., 16., 18., 19. og lokasýning föstudaginn 21. nóvember. Hægt er að panta miða í síma 455-8070 alla sýningardaga á milli klukkan 16:00 og 18:00. Miðaverð er 1000 kr. fyrir meðlimi NFNV og yngri en 16 ára og 1500 kr. fyrir aðra.
Klikkar aldrei!
Leikstjóri Á tjá og tundri er Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson en hann hefur leikstýrt nokkrum leikritum hjá FNV í gegnum tíðina og segir Jóndís hann aldrei klikka.
„Hann er frábær á þann hátt að hann er svona eins og pylsa með öllu. Með því að leikstýra þá hannar hann leikmyndina, er með ljósin og hljóðið alveg á hreinu og svo lengi mætti áfram telja.“ Hún segir það hafa gengið furðuvel að fá leikara í ár og er sérstaklega ánægjulegt hve margir nýnemar stíga á sviðið að þessu sinni.
Umfjöllunina í heild sinni má sjá í Feyki sem kom út í dag.