Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi?

Helga Ingólfssyni heimsspekingi finnst sem hann hafi farið illa út úr því að taka þátt í Feykir spyr hjá okkur hér á Feyki. „Fólk þarf að fá meiri umþóttunartíma, að mínu mati,“ segir hann alvarlegur í bragði.
Helga Ingólfssyni heimsspekingi finnst sem hann hafi farið illa út úr því að taka þátt í Feykir spyr hjá okkur hér á Feyki. „Fólk þarf að fá meiri umþóttunartíma, að mínu mati,“ segir hann alvarlegur í bragði.

Á dögunum hafði Helgi Eggert Ingólfsson heimspekingur samband við Dreifarann og sagðist fynna sig knúinn til að greina frá. „En ég er búinn að hugsa þetta fram og til baka og verð að viðurkenna að það er ekki við neinn að sakast í þessu máli, nema þá helst sjálfan mig, og ég vil fyrir alla muni taka fram að ég er alls ekki að álasa eða gagnrýna ritstjóra Feykis, þó svo hann hafi að sjálfsögðu spurt mig þessarar spurningar forðum,“ segir Helgi Eggert alvarlegur.

Hann heldur áfram: -Að sjálfsögðu var spurningin skondin. Ég sá fyrir mér ritstjórann glottandi á bak við gleraugun þegar hann sendi þessa spurningu á okkur fjóra Fésbókarvini sína: „Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi?“ Ég sá fyrir mér ritstjórann hlægjandi með sjálfum sér. Og jú, ég viðurkenni að mig hafði lengi dreymt um að verða viðtalsefni í Feyki. Lítil mynd af mér á forsíðu, brosandi óræðu brosi, og undir myndinni stæði kannski: „Helgi Ingólfsson heimspekingur í fróðlegu opnuviðtali Feykis,“ og svo einhver snjall titill viðtalsins með stærri stöfum. Stór mynd í opnu, kannski af mér að grúska í bók með mynd af Nietzsche í bakgrunninum. Nei, kannski væri það of tilgerðarlegt. Útfyllt skólatafla kannski?

Þetta hefur semsagt ekki verið viðtal segirðu? -Nei, nei, blessaður vertu, bara Feykir spyr. Það var kannski ekki mikill glans yfir því að fá að svara spurningu á næstöftustu síðu ásamt einhverjum þremur öðrum. Mér þótti þetta oft ansi hlægilegt. Eins og Feykir geti spurt? Óttaleg þvæla að sjálfsögðu. Það er blaðamaðurinn sem spyr og oftar en ekki svona spennandi spurninga eins og: „Hvað borðaðir þú mörg páskaegg um páskana?“ eða „Ertu farinn að versla jólagjafirnar?“ eða „Á að fara í réttir?“ Svona della bara. Já og alltaf sýndist mér það vera sama fólkið sem svaraði.

Þannig að þetta hefur verið óvænt? -Já, þess vegna kom það einhvern veginn algjörlega flatt upp á mig að ég skildi vera spurður svona upp úr þurru, að mér fannst, rétt fyrir hádegi á þriðjudegi.„Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi?“ stóð þarna semsagt í skilaboðum á skjánum hjá mér og síðan bættist við eftir nokkrar mínútur: „Heldurðu að þú gætir svarað mér í hvelli, blaðið er að fara í prentun!!!“

Já, það er oft pressa í kringum þessa útgáfustarfsemi Helgi. -Ég veit, ég veit. En ég fraus þarna hálfpartinn til að byrja með. Ég meina; þegar stórt er spurt og svo framvegis. Ég áttaði mig auðvitað á því að þetta var kannski eitthvað grín eins og venjulega. Spurningin auðvitað eins gömul og... ég ætlaði að segja upphafið en það er auðvitað ekki alls kostar rétt. En Stuðmenn spurðu þessarar spurningar á sínum tíma í laginu Reykingar...

Af plötu sinni Með allt á hreinu. -Já, frekar ofmetinni plötu ef þú spyrð mig. En hvað um það, ég hugsaði með mér að það væri freistandi að svara á sömu nótum. Kannski með því að segja: „Að koma nakinn fram“ og vitna þannig í lagið Slá í gegn af sömu plötu. Svar sem má svosem til sanns vegar færa. Öll komum við nakin fram í byrjun lífsins, sjálfri fæðingunni og oftar en ekki hefur fólk afklæðst þegar getnaðurinn fer fram og svo framvegis. Þannig að hugmynd mín var að nektin héldi við gangi lífsins sem væri þá kannski hinn einfaldi tilgangur.. nú eða tilgangsleysi lífsins... eða með öðrum orðum að tilgangur lífsins væri að viðhalda lífinu per se.

Ég skil hvað þú ert að fara Helgi. -Nei, þetta var of þvælið og alltof djúp pæling fyrir lesendur Feykis – að mínu mati skilurðu. Og kannski ekki alveg nógu úthugsað hjá mér. En í því sem ég er að velta þessu öllu fyrir mér dúkka upp á skjánum hjá mér skilaboð. „Ertu búinn að sjá spurninguna frá mér???“ Ritstjórinn var að fara á taugum og hann stressaði mig upp. Auðvitað vissi hann að ég var búinn að sjá skilaboðin. Það stóð pottþétt í glugganum hjá honum, þú veist: „Seen at 11:59“ eða eitthvað álíka. Það er ekkert sem maður getur falið lengur í þessum heimi. Áður en ég vissi af hafði ég svarað: „Æji sjitt, þetta er alveg að koma“ og svo bætti ég við broskalli. Fokkin broskalli. Hvað var ég að pæla?

Já, satt segirðu. -Nákvæmlega. Og nú komst ég ekki hjá því að svara þessari mikilvægu og stóru spurningu. Ég gekk glaður í gildruna – að vísu pínu stressaður. En nú varð ég að vera fljótur að hugsa. Ekkert fær jú stöðvað gang tímans, hugsaði ég. Mér datt í hug að gúggla spurninguna en eftir dálitla leit fann ég ekkert svar sem mér fannst sniðugt eða rétt. Hvað var eiginlega að mér? Átti ég ekki, heimspekilærður maðurinn, að hafa svar á reiðum höndum? Þá komu aftur skilaboð: „Nú verður svarið að koma Helgi, áður en það kemur helgi...“

Haha, góður. -Segðu. Ritstjórinn var búinn að draga fram gamla brandarasettið sitt. Melurinn. Ég kíkti á klukkuna og hún var orðin 12:53. Tíminn flaug áfram. Þá datt mér allt í einu í hug svar sem í senn var satt og rétt og lá auðvitað í augum uppi allan tímann eins og allur alvöru sannleikur þessa heims: „Ég veit það ekki.“ Ég hristi höfuðið í forundran yfir eigin snilligáfu og sló inn þessi fjögur orð í skilaboðin til ritstjóra Feykis og fékk til baka eldhressan broskall. Ég hallaði mér aftur í stólnum og spennti greipar fyrir aftan höfuð, talsvert ánægður með sjálfan mig.

Þú máttir vera það. Þetta var auðvitað frábært svar. En hvað gerðist svo, Helgi? -Nú þegar Feykir kom út degi síðar mátti sjá fjögur misjöfn svör við þessari einni mikilvægustu spurningu mannkynsins. Ungur maður, sem ég kannaðist aðeins við, sagði tilgang lífsins vera að detta í það á fimmtudögum, skrifstofukona talaði um hamingjuna og miðaldra afgreiðslumaður í Skaffó svaraði: „Ó ó hver er ég?“ líkt og Stuðmenn forðum. Ég, Helgi Ingólfsson heimspekingur, svaraði -Ég veit það ekki- og hef síðan verið kallaður Helgi veit ekkert.

Já... eða reyndar eitthvað enn verra... hef ég heyrt. -Já, einmitt... jújú, það stemmir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir