Ádeila á almennan upplýsingaskort í Skagafirði

Auglýsing frá Adda Sig., sem birt var í Sjónhorninu í vikunni sem leið, vakti víða athygli og klóruðu margir Skagfirðingar sér í hausnum yfir merkingu hennar. Í auglýsingunni stóð: „Sauðkrækingar og nærsveitarmenn. Tek að mér svipuð verkefni í fyrra. Er á gamla góða staðnum. Sama símanúmer og undanfarin ár.“

Ástmar Sigurjónsson, eða Addi Sig., birti á Facebook-síðu sinni í dag raunverulega ástæðu fyrir birtingu auglýsingarinnar. „Ástæðan fyrir birtingu auglýsingarinnar er almennur upplýsingaskortur í auglýsingum í Skagafirði, mig langaði að leyfa Skagfirðingum að finna þetta aðeins á eigin skinni,“ sagði Ástmar í samtali við Feyki.

„Við hjónin erum bæði aðflutt, og höfum séð það að Sjónhornið er helsti miðillinn til að sjá hvað er í gangi í firðinum. En við höfum oft rekið okkur á eftirfarandi upplýsingar „á sama stað og í fyrra“, „á gamla góða staðnum“, „í Gúttó“, „Á flæðunum“.

Þeir sem ólust ekki upp hérna hafa ekki hugmynd um hvar þessir staðir eru, og oft er símanúmer ekki einu sinni með til að maður geti aflað sér upplýsinga. Fyrstu jólin okkar kom auglýsing í Sjónhorninu um jólatrjásölu, þar stóð: „Á sama stað og í fyrra“ og ekkert símanúmer, við áttum leið suður og keyptum því jólatréð okkar þar, því við höfðum ekki hugmynd um hvar við áttum að leita hér í firðinum,“ útskýrir Ástmar.

Hann segist enn sem komið er ekki hafa fengið mikil viðbrögð við auglýsingunni, enda er innan við sólarhringur síðan hann gaf það út að hann hefði beðið um hana.

„En ég hef heyrt frá öðrum að mikil umræða hafa farið í gang um hver í ósköpunum hefði sett þessa auglýsingu í Sjónhornið og hvaða tilgangi hún þjónaði. Viðbrögðin eru talsvert meiri en ég bjóst við og mér sýnist hún hafa náð sínum tilgangi algerlega,“ sagði Ástmar og verður spjallað nánar við hann í næsta Feyki sem kemur út á fimmtudag.

Fleiri fréttir