Aðför að menntastofnunum í Skagafirði
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir harðlega þeim niðurskurðartillögum sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur lagt til í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár og segja þær vera aðför ríkisstjórnarinnar að menntastofnunum í Skagafirði. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var samhljóða á sveitarstjórnarfundi Svf. Skagafjarðar sl. miðvikudag.
Í ályktuninni segir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sé kveðið á um að efla menntakerfið með hagsmuni allrar þjóðarinnar að leiðarljósi. Þá segir í kaflanum um byggðamál að áhersla sé lögð á samþættingu við stefnumótun og samvinnu við sveitarfélögin.
„Ekki hefur farið fram neitt samráð um boðaðan niðurskurð til menntastofnanna; Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Háskólans að Hólum, sem augljóslega raskar því að íbúar fá notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi,“ segir loks í ályktuninni.