Ádrepa eða ekki ádrepa frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu

Svar hefur borist frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu varðandi kæru Sigurjóns Þórðarsonar, varafulltrúa Skagafjarðarlistans þar sem óskað var eftir aðkomu þess vegna ólögmætrar stjórnsýslu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Sigurjón segir á Facebooksíðu sinni að Sveitarfélagið Skagafjörður hafi fengið ádrepu frá ráðuneytinu. Meirihlutinn ekki sammála þeirri túlkun.

„Sveitarfélagið Skagafjörður fékk ádrepu frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála, vegna kvörtunar minnar um ólögmæta st[j]órnsýslu, í tengslum við leynisamninga upp á mörghundruð milljón krónur, við einkafyrirtækið Sýndarveruleika ehf.

Af bréfi ráðuneytisins má ráða að yfirstjórn Sveitarfélagsins hafi ekki greint st[j]órnarráðinu rétt frá málavöxtum, þ.e. að nú þegar sé verið að vinna eftir samningum, sem hafa ekki enn hlotið umfjöllun og samþykkt í Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar!“

Aðspurður um hvort megi af bréfinu ráða að yfirstjórn Sveitarfélagsins hafi ekki greint stjórnarráðinu rétt frá málavöxtum í þessu máli, segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs: „Ég hvet fólk til að lesa bréfið og meta sjálft hvort það sjái þessa túlkun Sigurjóns á bréfinu.“

Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti dagsett 8. maí 2018 vegna kvörtunar Sigurjóns Þórðarsonar 23. mars 2018.

Bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins var tekið fyrir á fundi byggðaráðs í gær og segir m.a. í bókun Stefáns Vagns og Sigríðar Svavarsdóttur að meirihluti byggðarráðs deili skoðunum með ráðuneytinu um mikilvægi þess að þau mál sem um ræðir verði afgreidd í samræmi við sveitarstjórnarlög og leggur áherslu á að áfram verði unnið í viðkomandi samningum með það að markmiði að ljúka þeim svo fljótt sem aðstæður leyfa.

„Meirihluti Byggðarráðs telur að skilja beri efni framangreinds bréfs ráðuneytisins frá 08.05. 2018 með þeim hætti að á meðan viðkomandi mál séu enn í vinnslu telji ráðuneytið að ekki séu forsendur fyrir því að það fjalli um þau með þeim hætti sem kvartandi krafðist í bréfi sínu frá 23.03. 2018.“

Bjarni Jónsson fulltrúi Vg og óháðra segir í bókun sinni að í bréfinu felist alvarleg ádrepa á meirihluta sveitarstjórnar vegna þeirrar leyndarhyggju sem hefur verið um eðli og innihald samninga vegna uppbyggingar sýndarveruleikasýningar, Sýndarveruleika ehf. og varnaðarorð um framhaldið.

„Þar sem undirritaður hefur ekki séð hvernig meirihlutinn réttlætti leyndina og málsmeðferðina gagnvart ráðuneytinu er settur fyrirvari við innihaldið og eins dregið í efa að nægjanlega hafi verið gerð grein fyrir því að nú þegar sé farið að vinna eftir samningunum að einhverju leiti,“ segir Bjarni

Tengd frétt: Kærir málsmeðferð Sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir