Aðsend grein: Gjöf kvenna á Íslandi til kvenna á Nýja Íslandi
Í ágúst 2023 fór hópur á vegum Annríkis-þjóðbúningar og skart í ferð á íslendingaslóðir í Norður Dakóta í Bandaríkjunum og Manitoba í Kanada. Með í för voru Íslenskir þjóðbúningar af ýmsum stærðum og gerðum sem hópurinn spókaði sig í við hin ýmsu tækifæri, gjarnan í yfir 30 stiga hita. Hápunkturinn var þegar Íslenskar konur stóðu heiðursvörð þegar fjallkona íslendingahátíðarinnar í Gimli gekk inn á svæðið.
Í þessari ferð fæddist sú hugmynd hjá þeim Annríkishjónum Hildi og Ása að endurnýja fjallkonukyrtilinn. Þau höfðu samband við forsvarsmenn hátíðarinnar í Gimli og í samráði við þau var valið efni, litur og mynstur á kyrtilinn. Mynstrið er hannað af Sigurði málara en hann hannaði einmitt kyrtilinn á sínum tíma. Þau höfðu svo samband við hóp fólks og buðu þeim að taka þátt í að skapa kyrtilinn. Verkefnin voru margsskonar, saumaskapur, fjölmiðlafulltúi, útbúin bæklingur um verkefnið sem fylgir búningnum til Kanada, ritari o.fl. Fyrsti fundur var svo haldinn 2. Nóvember 2024 þar sem verkefnum var útdeilt. Fjórar Skagfirskar konur voru í þessum hópi og tóku þær að sér útsauminn neðan á pilsinu. Þetta voru þær Ásta Ólöf Jónsdóttir, Jóhanna Björnsdóttir, Sigríður Ingólfsdóttir og Rósa Róarsdóttir. Við höfðum aðstöðu í Aðalgötu 2 og hittumst reglulega og saumuðum saman. Þetta gekk fínt og við skiluðum af okkur í mars 2025. Í maí var hafist handa við að sauma kyrtilinn saman, sauma undirpils, útbúa svitapúða, ganga frá belti og lagfæra höfuðbúnað. Öll þessi vinna var unnin í sjálfboðavinnu og á kostnað þátttakenda. Efni í kyrtilinn og lagfæring á skarti var gefin af Annríki.
Það var svo hinn 19 júní sem kyrtillinn var afhentur í athöfn í lítilli og fallegri kirkju að Minna Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd. Sigrun Asmundsson forseti Íslendingadagsins í Gimli tók við búningnum fyrir hönd Vestur-Íslendinganna en einnig voru viðstaddar Jenny Hinn sendiherra Kanada á Íslandi og Eliza Reed fyrrum forsetafrú.
Í ár eru 150 ár síðan Íslendingar settust að við vestanvert Winnipegvatn. Það var gaman að koma á þessar slóðir og upplifa hvað fólk er ennþá tengt Íslandi eftir allan þennan tíma. Fólk talar jafnvel íslensku og hafði mikinn áhuga á íslenskum þjóðbúningum. Það er því afskaplega gaman að geta sýnt í verki að okkur þyki líka vænt um þessi tengsl. Fjallkonan á sér lengri hefð í Kanada en á Íslandi. Fjallkonan í Gimli kom fyrst fram á Íslendingadeginum árið 1924, tuttugu árum áður en Lýðveldið Ísland varð að veruleika.
Á Íslendingahátíðinni í Gimli ágústbyrjun verður kyrtillinn síðan vígður og þá mun hluti hópsins fylgja búningnum og taka þátt í hátíðahöldunum.
Ég er afskaplega stolt af að hafa tekið þátt í þessu verkefni og að eiga saumaspor í þessum fallega kyrtli sem borinn verður af Fjallkonu Vestur-Íslendinga.
Sauðárkróki í júlí 2025
Ásta Ólöf Jónsdóttir