Æðarfugladauði á Hrauni á Skaga
Í síðustu viku barst Matvælastofnun tilkynning um að fjölmargar æðarkollur og nokkrir aðrir villtir fuglar hefðu fundist dauðir á Hrauni á Skaga og leiddi rannsókn hjá Tilraunastöð HÍ að Keldum á fuglunum að um fuglakóleru var að ræða. Fólki stafar ekki hætta af henni.
Á heimasíðu MAST kemur fram að fimmtudaginn 14. júní hefðu bændur á bænum Hrauni á Skaga haft samband við héraðsdýralækni Matvælastofnunar og létu vita um óvenju marga dauða fugla á svæðinu. Rúmlega fjörtíu æðarkollur höfðu fundist dauðar á hreiðrum sínum, ásamt nokkrum máfum og gæs.
Stofnunin hafði samband við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og óskaði eftir rannsókn á fuglunum, sér í lagi vegna hættu á fuglaflensu. Svo vel vildi til að heimamenn áttu erindi til Reykjavíkur og gátu því komið fuglunum á Keldur síðdegis á fimmtudag. Tilraunastöðin brást skjótt við og strax á föstudagmorgni barst svar um að ekki væri um fuglaflensu að ræða. Fuglarnir voru síðan krufðir og fleiri rannsóknir gerðar.
Niðurstaða þeirra barst svo á laugardagsmorgun. Í ljós kom að um fuglakóleru var að ræða. Orsök hennar er bakterían Pasteurella multocida, sem er vel þekkt orsök dauða í villtum fuglum. Einkenni geta verið skyndilegur dauði eins og í þessu tilfelli, en stundum tekur sjúkdómsferlið lengri tíma og fuglarnir veslast smám saman upp.
Sjá nánar á mast.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.