Æfingar standa yfir á Snædrottningunni

Í september sameinuðust Leikfélag Hvammstanga og Leikdeild umf. Grettis í eitt félag, Leikflokk Húnaþings vestra, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Félagsheimilinu Hvammstanga.

Á dagskránni eru tvær uppfærslur á leikárinu, barnaleikrit um jólin og söngleikur um páskana.  Á Facebooksíðu félagsins segir að stefnt sé á að halda uppi starfsemi félagsins með sýningum a.m.k. annað hvert ár.

Æfingar standa nú yfir á ævintýrinu vinsæla eftir HC Andersen, Snædrottningin, undir leikstjórn Greta Clough.

Leikritið fjallar um vináttu, kærleika og hugrekki en Kári og Gerða eru bestu vinir sem myndu gera hvað sem er fyrir hvort annað. Þegar Kári hverfur eina kalda vetrarnótt leggur Gerða af stað í ævintýraför um ókunn lönd alla leið að Klakahöll Snædrottningarinnar. Hún eignast marga vini á leiðinni, sem gera hvað þeir geta til að hjálpa henni, en hún ein getur bjargað Kára frá Snædrottningunni.

Frumsýnt verður í Félagsheimili Hvammstanga 7. desember kl. 19:00. Einnig verða sýningar 8. og 9. des. og eru miðar komnir í sölu á sérstöku forsöluverði fram til 1. desember.

Sjá nánar á heimasíðu Leikflokksins: leikflokkurinn.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir