Ætla að gefa gömlum hlutum framhaldslíf

Húsnæði endurnýtingarmiðstöðvarinnar. Myndir:FE
Húsnæði endurnýtingarmiðstöðvarinnar. Myndir:FE

Endurnýting og sjálfbærni eru hugtök sem öðlast hafa mikið flug undanfarin misseri enda er almenningur farinn að opna augun fyrir því að sú neysluhyggja sem einkennt hefur vestræn samfélög undanfarna áratugi stefnir jörðinni okkar í óefni.

Tvær framsýnar konur á Hofsósi standa nú í miklum framkvæmdum við að koma á fót endurnýtingarmiðstöð og í stíl við endurnýtingarhugsjónina hafa þær tekið sér fyrir hendur að standsetja gamalt hús sem ekki hefur þjónað neinu hlutverki um nokkurra ára skeið. Þar hyggjast þær setja upp verkstæði og taka á móti fatnaði og húsgögnum sem lokið hafa hlutverki sínu. Feykir hitti þær Þuríði Helgu Jónasdóttur og Solveigu Pétursdóttur að máli og forvitnaðist um það sem þær hafa á prjónunum.

Framkvæmdakonurnar Þuríður Helga og Solveig.

Þær stöllur segja að upphafið megi rekja til þess að þær sóttu um þátttöku í verkefninu Ræsing Skagafjarðar sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands stóð fyrir á síðasta ári í samvinnu við Sveitarfélagið Skagafjörð og Kaupfélag Skagfirðinga. Þar unnu þær með hugmynd sína um að setja á fót endurnýtingarmiðstöð og vinna þar með notuð föt og húsgögn í þeim tilgangi að gera eitthvað nýtt og nothæft úr þeim og jafnvel að bjóða upp á námskeið tengd sjálfbærni og endurnýtingu. Einnig sjá þær fyrir sér að aðrir sem áhuga hafa á að dytta að gömlum hlutum og koma í nothæft stand geti fengið aðstöðu hjá þeim, ásamt því að hugsanlega mætti starfrækja þar upplýsingamiðstöð en engin slík er fyrir hendi á Hofsósi. Í Ræsingu fengu þær aðstoð við að gera viðskiptaáætlun og ýmiss konar greiningar og var verkefnið þeirra, sem fék heitið Verðandi – miðstöð endurnýtingar, annað tveggja sem fékk sérstök hvatningarverðlaun í lok verkefnisins en önnur tvö fengu fyrstu og önnur verðlaun.

Það er gott að kunna að munda verkfærin þegar verkefnin eru ærin.

Í framhaldi af þessu fóru þær að leita fyrir sér með húsnæði og fengu til afnota gamalt hús í eigu sveitarfélagsins. Húsið heitir Þangstaðir og er gamalt íbúðarhús sem ekki hefur verið búið í í áratugi og þjónaði það líka hlutverki vigtarhúss um árabil. „Sveitarfélagið leyfir okkur að nota það án endurgjalds en við þurfum að koma því í stand og það er rándýrt því að það  var í mjög slæmu ástandi. En við erum mjög ákveðnar í að gera það og erum byrjaðar að einangra það að innan og ætlum að fá nýja glugga og hurð og svo getum við vonandi opnað þarna í sumar,“ segja þær galvaskar. „Þarna er bara pláss fyrir litla smíðaaðstöðu og lítið saumaverkstæði. Okkur hefur áskotnast margt, við erum t.d. búnar að eignast tvær overlock saumavélar og eina beinsaumavél þannig að við erum komnar með þrjár saumavélar sem eru töluvert öflugar. Svo fengum við vænan styrk frá SSNV sem við munum nota í þessa uppbyggingu, við erum í rauninni að fá hann sem laun fyrir okkar vinnu og í kynningarstarf, augýsingar og heimasíðu. Þannig að nú erum við með hamar og borvél og græjur úti í Þangstöðum að gera klárt.“

Eins og fram hefur komið eru framkvæmdirnar kostnaðarsamar og segjast þær taka fagnandi á móti hverju því sem að notum geti komið, jafnt spónaplötum og spýtum sem málningu og verkfærum.

Helga og Solveig segja að hugmynd þeirra hafi fengið afar jákvæðar viðtökur. „Það er ótrúlega gaman að það virðist vera svo mikill áhugi í samfélaginu fyrir þessu, bæði þessari hugmyndafræði að endurnýta og geta gert upp og líka að fólk er svo ánægt með að það sé einhver sem er að gera eitthvað, bara til þess að auka atvinnu á svæðinu og bæta við það sem er fyrir og það er svo gott að finna fyrir svona mikilli jákvæðni. Auðvitað er þetta stórt og mikið verkefni að fara í og verður auðvitað aldrei nein gróðastarfsemi, þetta er bara þannig verkefni að ef það stæði undir sér þá væri það bara mjög gott,“ segja þær að lokum.

Facebooksíða endurnýtingarmiðstöðvarinnar er Verðandi endurnýtingarmiðstöð og netfangið er verdandiendurnyting@gmail.com .

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir