Ævintýri norðursins fer fram á laugardag

Hin árlega stóðsmölun á Laxárdal fer fram laugardaginn 13. september og er öllum velkomið að taka þátt í þessum einstaka reiðtúr. Lagt verður upp frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10, áætlað er að koma í Kirkjuskarðsrétt kl. 14 og halda þaðan klukkan 16. Ferðamannafjallakóngur verður Valgarður Hilmarsson.

Á Húna.is kemur fram að veitingasala verður í Kirkjuskarðs- og Skrapatungurétt. Aðstaða er til að geyma hesta frá föstudegi yfir á laugardag á Strjúgsstöðum, við sandnámu (norðan afleggjara). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni.

Laugardagurinn endar með stóðréttarballi í Félagsheimilinu á Blönduósi sem hefst klukkan 23. Hljómsveitin Hreimur og Made in sveitin, ásamt Magna Ásgeirssyni spila fyrir dansi. Miðaverð er 3.000 krónur og verður barinn opinn en aldurstakmark er 18 ár.

Sunnudaginn 14. september hefjast stóðréttir í Skrapatungurétt klukkan 11 og verður þar boðið upp á skemmtilega alíslenska stemmningu. Veitingasala verður í réttarskála.

Fleiri fréttir