Ævisaga Guðrúnar frá Lundi á 80 ára útgáfuafmæli Dalaífs

Ævisaga skáldkonunnar Guðrúnar frá Lundi, rituð af þeim Kristínu Sigurrós Einarsdóttur og Marín Guðrúnu Hrafnsdóttur, verður gefin út hjá bókaforlaginu Tindi á næsta ári. Þá verða liðin 80 ár frá því að fyrsta bindi skáldsögunnar Dalaífs, sem enn er meðal mest lesnu bóka landsins, kom út.
Þær Kristín Sigurrós, sem er forstöðumaður Héraðsbókasafns Skagfirðinga og svæðisleiðsögumaður og Marín Guðrún, sem er forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands og langömmubarn Guðrúnar, hófu undirbúningsvinnu að bókinni í fyrrahaust. Hafði Helgi Jónsson hjá bókaútgáfunni Tindi þá nokkrum sinnum nefnt hugmyndina um ritun ævisögunnar við Kristínu, en úr varð að þær stöllur skrifuðu bókina í sameiningu. Ákveðið var að taka tvö ár í vinnuna og stefna að útgáfu á 80 ára útgáfuafmæli Guðrúnar.
Vel miðar við skrifin og hafa höfundar nýtt tímann vel til að viða að sér heimildum og myndefni. „Það má kannski segja að við vinnum þetta eins og Guðrún gerði sjálf. Við stelum okkur stund og stund til að skrifa, að loknum hefðbundnum vinnudegi. Það er líklega veruleiki margra, hvort sem það eru ritstörf, tónlist, myndlist eða einhvers konar grúsk sem fólk fæst við í frítímanum,“ segja Kristín og Marín. „Báðar höfum við starfað sem blaðamenn og störfum á bókasöfnum í dag. Þannig höfum við lifað og hrærst kringum bækur og ritstörf, þó þetta sé fyrsta bók okkar beggja. Það eigum við raunar líka sameiginlegt með Guðrúnu, að senda frá okkur fyrstu bókina komnar á sextugsaldur.“
Þrátt fyrir að bókin hafi verið í smíðum í tæpt ár á samstarf þeirra vinkvennanna sér lengri forsögu. Kynnin hófust þegar Kristín, sem m.a. er með MA próf í menntavísindum og menntaður svæðisleiðsögumaður var á þeim tíma blaðamaður hjá héraðsblaðinu Feyki. Árið 2014 ritaði hún grein um Guðrúnu í tilefni af endurútgáfu Dalalífs. Í framhaldinu bauð hún upp á ferðir með leiðsögn um slóðir skáldkonunnar og var Marín og öðrum afkomendum Guðrúnar boðið í fyrstu ferðina. Marín hefur í nærri 30 ár viðað að sér heimildum um langömmu sína og komið að endurútgáfu bóka hennar, málþingum sem haldin voru í Fljótum og fleiri viðburðum tengdum Guðrúnu. Einnig fjallaði meistararprófsverkefni hennar um Guðrúnu frá Lundi, en Marín er bókmenntafræðingur og með MA próf í hagnýtri menningarmiðlun.
Leita að myndum og bréfum og öðru sem tengist Guðrúnu frá Lundi
„Árið 2016 fengum við svo báðar sömu hugmyndina, að setja upp sýningu um ævi og störf Guðrúnar. Við ákváðum þá að sameina krafta okkar. Úr varð sýningin „Kona á skjön – ævi og störf Guðrúnar frá Lundi,“ segja Kristín og Marín. Umrædd sýning var fyrst opnuð á Sauðárkróki 3. júní 2017, en þann dag voru 130 liðin frá fæðingu skáldkonunnar. Eftir það hefur sýningin verið sett upp á 12 öðrum stöðum á landinu.
Bókarhöfundar segja heimildaöflunina hingað til hafa byggt á rannsóknum í skjalasöfnum, lestri á útgefnu efni, ekki síst blaðagreinum, samtölum við vini og ættingja Guðrúnar og öflun mynda. „Okkur er mikið í mun að vanda alla vinnu við bókina. Þrátt fyrir að hafa viðað að okkur heilmiklu efni um margra ára skeið bindum við vonir um að enn sé eitthvað til sem við höfum ekki fest hendur á. Við biðlum því til fólks sem kann að eiga eitthvað í fórum sínum að láta okkur vita, hvort sem það eru myndir, sögur eða áþreifanlegar heimildir. Sendibréf segja til dæmis oft heilmikla sögu og við vitum að Guðrún átti sér pennavini. Það er allt vel þegið, stórt sem smátt,“ segja Kristín og Marín að lokum.
Guðrún frá Lundi var fædd á Lundi í Stíflu í Fljótum 3. júní 1887 og lést 22. ágúst 1975. Í dag eru því 50 ár liðin frá dánardegi hennar. Guðrún var um árabil mest lesni rithöfundur þjóðarinnar og bækur hennar njóta enn mikilla vinsælda. Hún skrifaði drög að sinni fyrstu skáldsögu, Dalalífi, um fermingaraldur en handritið lá í dvala í áratugi. Kom fyrsta bindi sögunnar út árið 1946. Alls skrifaði Guðrún 27 bækur á 28 árum og kom sú síðasta út árið 1972. Þrjár af sögum Guðrúnar, Dalalíf, Afdalabarn og Tengdadóttirin, hafa verið endurútgefnar.
Tengiliðir:
Kristín Sigurrós Einarsdóttir netfang: gagnvegur@gmail.com sími: 8673164
Marín Guðrún Hrafnsdóttir netfang: marin.gudrun.hrafndottir@gmail.com sími: 7764599