Af Sigurði frá Brún og Hesta-Bjarna - Kristinn Huga skrifar um hesta og menn

Þegar ég vaknaði í morgun mundi ég eftir að ég hefði lofað ritstjóra Feykis að senda honum greinarkorn og fór að velta fyrir mér um hvað það ætti að vera? Mér datt svo sem eitt og annað í hug en ekkert eitt varð ofan á. Fór ég síðan fljótlega upp í hesthús og eftir venjuleg morgunverk tóku útreiðar við. Í einum túrnum mætti ég stórkostlegum reiðmanni. Ég ætla ekkert að verða nákvæmari í frásögninni né persónulegri, hvoru tveggja væri auðvelt en óþarft að sinni. Því þegar ég virti fyrir mér taumtökin svip mannsins og viðbrögð hestsins kom eftirfarandi ljóðahending upp í hugann:

„Og öll sú kynlega kynngi‘ í sæti,
er hvatti hrossin að stíga fæti
sem væru á fagnaðarför.“

Núlifandi maðurinn kemur ekki meira við sögu en ég sný mér að látnum. Hendingin er úr ljóði eftir Sigurð frá Brún (1898-1970) um Bjarna Jóhannesson (1861-1941) sem kunnari er undir kenninafninu; Hesta-Bjarni og birtist það í 3. ljóðaflokki bókarinnar Rætur og mura sem kom út hjá Norðra 1955, yfirskrift flokksins var: Lifendur og látnir. Heitir ljóðið einfaldlega Hesta-Bjarni.

Báðir þessir menn; Hesta-Bjarni og Sigurður frá Brún eru stórmerkar persónur í sögu hestamennsku og hrossaræktar á Íslandi. Allvel menntaðir að auki miðað við sinn samtíma. Bjarni var Möðruvellingur og stundaði barnakennslu á vetrum. Sigurður Jónsson frá Brún var gagnfræðingur frá Akureyrarskóla 1915 en skólinn var þá ekki kominn með réttindi til að útskrifa stúdenta. Hann var svo studdur af ættmennum sínum til náms við MR en dróst þar inn í deilur og hætti námi en lauk svo kennaraprófi 1919.

Hesta-Bjarni var besti og líklega afkastamesti tamningamaður sinnar samtíðar hvað fjölda taminna hrossa varðar, að mati Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp, einn stórhestamaðurinn til sem verður þó ekki rætt meira um að þessu sinni. Hesta-Bjarni var þó lengur að temja en flestir aðrir; hann vandaði svo til verksins en hann var svo þrautseigur og lengi að: Dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár og endalaust ný hross, árin urðu að áratugum og þegar hann féll í valinn áttræður var hann í enn einum tamningatúrnum og förinni heitið, svo sem löngum, norður í Eyjafjörð en auðvitað voru vinnubrögðin undir það síðasta orðin káklkenndari en þegar sól hans var í hádegisstað. Aðferðir Hesta-Bjarna við tamningar hafa staðist tímans tönn og má enn mikið af þeim læra.

Sigurður Jónsson frá Brún reyndi fyrir sér í búskap, eins og Bjarni gerði raunar líka en með litlum árangri hjá báðum. Hann kenndi nokkuð víða um land, hann þótti ekki góður tamningamaður en fágætur ferðagarpur og var leiðsögumaður um landið og fylgdarmaður náttúrufræðinga við rannsóknir sínar. Sigurður frá Brún var að auki öflugur hrossaræktarmaður (sjá grein Óskars Bergssonar Týndi risinn í Hestablaðinu - Hestar og hestamenn, jólablað 2012). Síðast en alls ekki síst var Sigurður frá Brún skáld hann sendi frá sér auk Róta og muru sem þegar er nefnd, ljóðabókina Sandfok árið 1940. Kveðskapur hans er það viðurkenndur að ljóð eftir hann er að finna í Íslenzku ljóðasafni sem út kom hjá AB í ritstjórn Kristjáns Karlssonar. Að auki komu út eftir Sigurð bækurnar: Einn á ferð og oftast ríðandi, hjá Norðra 1954 og Stafnsættirnar, hjá Bókaforlagi Odds Björnssonar 1964. Í fyrri bókinni fjallar Sigurður um sín margháttuðu ferðalög og í þeirri síðari um ræktunarstarf sitt, einkum þó rætur þess.

Ýmislegt tengir þessa tvo merkismenn saman ekki síst ljóðið sem vitnað var til hér fyrr, þótt niðurlagið lýti annars gott ljóð. Kennir þar því miður eðlisgróinnar bölsýni Sigurðar, því ýmislegt gott var þá við lýði, þótt vissulega hafi ekki glæsistaða hestamennskunnar í dag blasað við á dögum Sigurðar Jónssonar frá Brún.

 

HESTA–BJARNI   

Illur fyrir eigin hatt
-en oft voru störf hans þokkuð –
Hesta–Bjarni sagði satt,
segði hann annars nokkuð.

Hann fór um héruð með fjölda hesta
og flutti löngum það allrabesta,
sem bærði þar hóf eða há,
í gömlum hnakki með gæruskinni,
með glaskorn falið í ermi sinni
og dreypti því ótæpt á.

En hann var gleyminn á hættur manna,
og haga fannst honum ljótt að banna,
Því hjá honum svengdust hross.

Þó vannst svo, um það er karlinn kvaddi,
að koman heimamenn lengi gladdi.
Og eftir í högum varð hross.
Fyrir kom, að hann fjandann nefndi
og flutti nafnið, svo af því kemdi
og fáfróðum folum brá.

Og heimili hans og hans og afa og ömmu
í andartakinu brennivínsrömmu
hann hrappaði hrossin á.

En stangarleikurinn – hægur hljóður –
hve hann var indæll og vær og góður.
Hann var eins og koss á vör.
Og öll sú kynlega kynngi‘ í sæti,
er hvatti hrossin að stíga fæti
sem væru á fagnaðarför.

Því námu folar hans hlýjan huga,
og hann gat fengið þá til að duga
þá best, þegar mest þurfti með.

En klækjum, refjum og vondum vana
þeim vann hann eilífan, harðan bana bana
og gerði úr hreinlegt geð.

Nú er hann hættur að hleypa klárum.
Því hittist varla á þessum árum
hið skriðgóða dunandi skeið.

Og stóra, hástíga, hraða töltið
er horfið með honum. Hvolpanöltið,
það lýtir nú flesta reið.

Áður birst í 19. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir