Afmælisgjöfin fór í að fjármagna garðskúr fyrir Skammtímadvöl

Það var vel gætt að sóttvörnum og tveggja metra reglunni þegar afmælisbarnið, Ásta Ólöf Jónsdóttir, afhenti Guðrúnu Hönnu Kristjánsdóttur gjafabréf að garðskúr sem var afrakstur gjafa frá afmælisgestum hennar. Mynd: PF.
Það var vel gætt að sóttvörnum og tveggja metra reglunni þegar afmælisbarnið, Ásta Ólöf Jónsdóttir, afhenti Guðrúnu Hönnu Kristjánsdóttur gjafabréf að garðskúr sem var afrakstur gjafa frá afmælisgestum hennar. Mynd: PF.

Guðrún Hanna Kristjánsdóttir, forstöðumaður Skammtímadvalar á Sauðárkróki, fagnaði innilega afmæli Ástu Ólafar Jónsdóttur, aðalbókara Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem varð sextug sl. sunnudag. Hélt hún upp á tímamótin í september og í stað þess að þiggja gjafir bað hún fólk að leggja í púkk svo hjálpa mætti Skammtímadvöl að bæta útiaðstöðu með kofakaupum.

Ásta segist hafa verið ákveðin í því að halda upp á sextugsafmæli sitt með stæl, sem ekki tókst þó almennilega vegna heimsfaraldurs, en upp á það hélt hún samt. Þrátt fyrir að Ásta yrði sextug þann 1. nóvember sl. hélt hún upp á tímamótin í september þar sem henni leiðist að halda veislu að vetrarlagi.

Ekki amalegt gjafabréf frá afmælisbarni nóvembermánaðar. Mynd: PF.

„Ég hélt upp á afmælið í september, taldi mig nokkuð örugga þar sem Covid19 var rólegt um þessar mundir. Var síðan með kökk í hálsinum í tvær vikur á eftir, því þriðja holskeflan hófst rétt um það leyti sem veislan var, en það slapp til. Nema hvað að sextugar kerlingar þurfa ekki mikið á afmælisgjöfum að halda. Mig langaði einhvern veginn ekki  að fá fullt af blómavösum, málverkum eða jafnvel tíu gjafabréf í fótsnyrtingu, þannig að ég bað fólk bara að setja pening í kassa því ég vildi gera eitthvað fyrir samfélagið og niðurstaðan var góð,“ segir Ásta sem ákvað að fjárfesta í tólf fermetra garðskúr og afhenda Skammtímadvöl. Hún segist ekki hafa þurft að bæta neinum ósköpum við sjálf til að geta keypt skúrinn.  Vörumiðlun gaf svo afslátt af flutningnum og sveitarfélagið mun sjá um það verkefni að koma honum upp.

Hreinlega bara orðlaus
Guðrún Hanna var að vonum ánægð þegar Ásta afhenti henni gjafabréfið sl. föstudag. „Ég var lengi búin að reyna að fá vilyrði fyrir slíku garðhúsi. Við eigum mikið af útihúsgögnum en höfum ekkert geymslupláss fyrir afþreyingarhluti úti, eins og trampólín, mörk, grill, garðhúsgögn  o.fl. svo við höfum þurft að fara með þau í Hofsós til geymslu,“ útskýrir Guðrún en ef stefnir í vont veður þarf að flytja dótið í burtu sem kemur þá ekki til baka þegar komið er haust.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri var ánægður með framtak vinnufélaga síns. „Ég var nýbúin að senda póst á sveitarfélagið um þetta mál þegar Ásta kallar mig upp á skrifstofu og spyr hvað okkur vanti. Ég segi þá bara í gríni: Kofa! En það varð úr að hún náði að safna fyrir einum kofa sem á eftir að koma starfseminni afar vel.“

Guðrún segir að þegar vel viðrar sé oft setið úti og hefur pallurinn nýst mjög vel í haust en svo vildi til að rétt fyrir afmælisveislu Ástu gekk fyrsta haustlægðin yfir og var allt dótið sent í geymslu. Í október var hins vegar blíða en ekki hægt að nýta útihlutina sem skyldi.

„Við erum ofboðslega þakklát og glöð yfir þessari gjöf Ástu og hreinlega bara orðlaus,“ segir Guðrún Hanna.

Skammtímadvöl þjónustar ellefu einstaklinga, og þrír dvelja þar í senn. Dvalargestir eru af öllu Norðurlandi vestra, á ýmsum aldri og eiga það sameiginlegt að búa hjá foreldrum en fá að dveljast dag og dag eða nokkra daga í senn á Grundarstígnum á Króknum.

Fleiri fréttir