Afterglow með Ásgeiri Trausta komin út
Eftir langa bið hefur tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti frá Laugarbakka í Miðfirði loks sent frá sér nýja tónlistarafurð sem hann kallar Afterglow. Nú gerir kappinn víðreyst um jörðina þar sem hann fylgir eftir útgáfu disksins, sem alla jafna hefur verið að fá fínar umsagnir.
Í tilkynningu á Facebook-síðu sinni segir Ásgeir að nú séu næstum því fimm ár síðan fyrsta plata hans, Dýrð í dauðaþögn, kom út og aldrei hefði hann grunað hvað næstu árin bæru með sér. Eftir að hafa fylgt eftir þeirri útgáfu í þrjú ár með endalausum tónleikum um allan heim þá hófst vinna við fylgifiskinn árið 2015, ferli sem reyndist ansi strembið. Eftir frábærar viðtökur fyrstu plötunnar var mikil pressa á Ásgeiri við gerð plötu tvö. Hlutirnir smullu loks saman eftir að hann snéri heim á Laugarbakka til mömmu sinnar þar sem hann vann síðan að nokkrum lögum með pabba sínum.
Nýja platan, Afterglow, er talsvert elektrónískari en Dýrð í dauðaþögn og það verða örugglega einhverjir sem sakna gítarsins. Þá er platan talsvert seinteknari en fyrirrennari hennar og mun sennilega ekki rata jafn auðveldlega inn í heilastöðvar hlustenda.
Þeir sem sannarlega féllu fyrir göldrum Ásgeirs ættu þó að finna talsverða fróun og sérstök hughrif við hlustun á Afterglow. Þrátt fyrir að platan sé elektrónískari en Dýrðin þá fær maður óvænt sterka náttúru-upplifun við að hlusta. Maður sér fyrir sér jökla skríða fram, ís bráðna, gróður springa út, lækjarsprænur í grænum mosa. Maður finnur lykt af jörðinni lifna. Söngur Ásgeirs er sem fyrr einstakur, laglínur fagrar en aldrei væmnar.
Afterglow er sólargeisli í sálina.