Áheitahlaup 7. og 8. bekkja Varmahlíðarskóla

Hlaupinn er svokallaður Hegraneshringur sem er um 65 km langur. Mynd: Íris Olga Lúðvíksdóttir.
Hlaupinn er svokallaður Hegraneshringur sem er um 65 km langur. Mynd: Íris Olga Lúðvíksdóttir.

Nk. mánudag, 30. apríl, ætla nemendur 7. og 8. bekkjar Varmahlíðarskóla að reima á sig hlaupaskóna og hlaupa áheitahlaup, svokallaðan Hegraneshring, til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar. Þetta er í fjórða sinn sem nemendur þessara bekkja hlaupa slíkt hlaup en fyrst var hlaupið árið 2012. 

Íris Olga Lúðvíksdóttir, kennari í Varmahlíðarskóla og umsjónarmaður verkefnisins, segir um tilurð hlaupsins:  ,,Veturinn 2011-12 veltu nemendur í 7. bekk fyrir sér hvað þau ættu að gera sem verkefni vegna átaksins Tóbakslaus bekkur. Eftir miklar vangaveltur og umræður var ákveðið að halda ráðstefnu og fræðslu fyrir nemendur, foreldra og áhugasama um skaðsemi tóbaks en einnig láta gott af sér leiða með að hlaupa til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar. Svona er nú oft með bestu hugmyndirnar, þær fæðast oftar en ekki hjá nemendum en ekki kennurum!" Í þetta sinn söfnuðust 700 þúsund krónur sem runnu eins og áður segir til Krabbameinsfélags Skagafjarðar.

Nemendur hafa safnað myndarlegum upphæðum til styrktar góðu málefni.

Tveimur árum síðar hlupu nemendur 7. og 8. bekkja  aftur til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar og söfnuðu þá meira en einni miljón króna og í þriðja sinn var hlaupið vorið 2016 en þá söfnuðu nemendur rúmri milljón króna fyrir Ívar Elí Sigurjónson, flogaveikan dreng á Sauðárkróki, og fjölskyldu hans.

Á mánudaginn er svo komið að fjórða hlaupinu. Lagt verður af stað frá Varmahlíð klukkan 9 og hlaupið frá Varmahlíð að Sauðárkróki, þaðan um Hegranes yfir í Blönduhlíð og áfram í Varmahlíð, um 65 km. leið. Lögreglubifreið mun fylgja hópnum úr hlaði og að hluta til á Hegranesbrautinni. Hlaupahópurinn á Króknum er alltaf látinn vita og segir Íris að í hvert skipti fylgi meðlimir krökkunum kringum Krókinn. 

Hægt er að styrkja gott málefni með því að leggja inn á reikning nr. 0310-13-300727, kt: 581217-1100.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir