Akil DeFreitas hefur spilað erlendis frá 18 ára aldri

Akil á fleygiferð á Blönduósvelli. MYND: JÓN ÍVAR HERMANNSSON
Akil á fleygiferð á Blönduósvelli. MYND: JÓN ÍVAR HERMANNSSON

Einn af lykilleikmönnum liðs Kormáks/Hvatar í sumar, og sömuleiðis aðstoðarþjálfari liðsins, er Akil DeFreitas, 34 ára gamall atvinnufótboltamaður frá Trinidad og Tobago sem er lítil eyja í Karabíska hafinu. Akil segist yfirleitt spila á vinstri kanti en hann getur einnig spilað sem senter eða sem framliggjandi miðjumaður. Nú á þriðjudaginn gerði Akil sigurmark Kormáks/Hvatar þegar Húnvetningar mættu liði Hamars úr Hveragerði í hreinum úrslitaleik um sæti í 3. deild að ári. Hann hefur því heldur betur skrifað nafn sitt í sögubækur knattspyrnunnar í Húnavatnssýslum.

Akil kom fyrst til Íslands 2017 eftir að hafa fengið tilboð frá Sindra á Höfn. „Ég var á þeim tíma að leita að nýrri áskorun og síðan hef ég spilað knattspyrnu hér á Íslandi,“ segir Akil. Hann gerði átta mörk með Hornfirðingum það sumar, spilaði síðan með Vestra á Ísafirði sumarið 2018 og Völsungi á Húsavík 2019. Hann skipti síðan yfir í Kormák/Hvöt í vetur og hefur gert níu mörk í 14 leikjum með liðinu. „Áður en ég kom til Íslands spilaði ég í Finnlandi í fimm ár. Ég spilaði í Veikkausliiga sem er efsta deildin í Finnlandi og ég lék einnig með liði í Ykkönen [1. deild] sem í Kakkonen [2. deild].“

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú komst til Íslands? „Fámennið kom mér á óvart og fjarlægðin milli bæja sem krefst oft mikils aksturs.“

Hvernig finnst þér að vera hluti af liði Kormáks/Hvatar? „Það er gott að vera hluti af liðinu, leikmennirnir og fólkið í kringum félagið hefur verið vingjarnlegt og tekið mér vel.“

Hvað finnst þér um fótboltann á Íslandi og hver er munurinn á því að spila hér eða erlendis? „Tilfinning mín fyrir fótboltanum á Íslandi er að leikstíllinn er mjög beinskeittur og það reynir mjög á líkamlegan styrk leikmanna samanborið við leikinn í öðrum löndum. Þar sem ég spilaði var meira lagt upp úr tæknilegri getu og leikstíllinn byggði meira á hægari uppbyggingu og að halda boltanum betur.

Hver er uppáhalds liðsfélagi þinn eða skemmtilegasti? „Skemmtilegasti félaginn er Yepes því enskan hans er ekki mjög góð – það hefur mikið skemmtigildi að hlusta á hann tala ensku.“

Akil segist hafa vonast til þess þegar hann kom til Íslands að hann gæti spilað fótbolta í háum gæðaflokki og hafi litið á það sem áskorun. Það hafi verið eitthvað sem hann vonaðist til að geta gert alls staðar þar sem hann hafi spilað. „Ég hef upplifað það að spila tvívegis í bikarkeppni gegn liðum í efstu deild, FH og KR, og það er tilfinning sem ég vildi geta upplifað hverja helgi,“ segir Akil.

Hvaða fótboltamaður hefur verið þín fyrirmynd? „Ég get kannski ekki sagt að einhver leikmaður hafi verið fyrirmynd en mér finnst gaman að horfa á Messi því að fyrir mér er hann besti leikmaðurinn í dag. Mér finnst líka gaman að fylgjast með Mahrez hjá Manchester City og Saint-Maximin leikmanni Newcastle.“

Hvað gerir þú annað á Blönduósi en að spila fótbolta? „Venjulegur dagur hjá mér hér á Blönduósi gengur þannig fyrir sig að ég sé til þess að fótboltavöllurinn sé í fínu standi, svo þjálfa ég krakkana hér í fótbolta og æfi á kvöldin. Eftir æfingu fer ég í salinn og svo í ísbað. Deginum lýkur vanalega með kvöldmat um níuleytið, nuddi og teygjuæfingum áður en ég fer í háttinn. Fyrir utan fótboltann nota ég tímann mestmegnis í að slaka á, horfa á bíómyndir eða tala við ættingja og vini.“

Hefur dvölin á Íslandi verið erfið að einhverju leyti? „Ég hef verið að heiman síðan ég var 18 ára gamall. Þannig að það að flytja til Íslands hefur í raun verið afar auðvelt. Ég er orðinn vanur því að ferðast til mismunandi landa vegna fótboltans og hef búið í Finnlandi, Litháen, Svíþjóð, Singapore og Taílandi til að nefna einhver lönd.“

Að lokum; er Bjarki Már ekki orðinn alltof gamall til að spila fótbolta? „Haha, hann er mjög gamall en fæturnir hreyfast enn þá og hann gefur allt á vellinum,“ segir Akil og bætir við hlæjandi: „Ég held hann sé elsti leikmaðurinn á Íslandi!“

- - - - -

Viðtalið birtist fyrst í 33. tölublaði Feykis í september 2021. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir