Smásagnasafn eftir Stein Kárason komið út

Kápa bókar. MYND AÐSEND
Kápa bókar. MYND AÐSEND

Út er komin bókin Synda selir ­smásögur eftir Stein Kárason, sem er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki.

Synda selir hefur að geyma sjö smásögur sem gerast á Íslandi og erlendis. Sagt er frá ungum dreng sem gefur skyggnigáfu sína upp á bátinn, Danmerkurdögum með skáldlegu ívafi, gamalli konu með göngugreind, tímaflakki milli heimsálfa, sundfélögum sem leysa lands- og heimsmálin í legvatni, vinskap manna með ólíka kynhneigð, pólitískum mannaráðningum og kynbótum á mönnum sem hljóta óvæntan endi.

Steinn Kárason sem fæddur er á Skógargötunni á Króknum er mörgum kunnur fyrir bækur sínar og tónlist. Hann er höfundur fjögurra bóka og er Synda selir hans annað skáldverk.

Tvær sögur í bókinni tengjast Skagafirði. Önnur þeirra, „Lygaramerkið“ gerist á Króknum í ágúst árið 1964. Þar kemur við sögu Glói, 11 ára, - aðalpersónan í skáldsögunni „Glaðlega leikur skugginn í sólskininu“. Glói er sum sé strákurinn sem í þeirri bók gaf skyggnigáfu sína upp á bátinn. Hin sagan „Danmerkurdagar“ tengist samneyti manna og álfa í Austurdal í Skagafirði.

Kápumyndin ­ „Á ókunnri strönd“ er eftir listmálarann Elías B. Halldórsson, sem lengi bjó á Sauðárkróki.

Með þessu smásagnasafni kemur glöggt í ljós frumleiki Steins í sagnagerð og góð tök á málinu. Tónninn er hlýlegur og glettinn og frásögnin beinir huga lesanda inn á við ­ að óljósum mörkum skáldskapar og raunveruleika.

Smásögurnar í bókinni nefnast:

  • Lygaramerkið
  • Danmerkurdagar
  • Brúin
  • Konan með göngugreindina
  • Synda selir
  • Vinur minn kynvillingurinn
  • Einn tvöfaldur

 

Synda selir fæst í Skagfirðingabúð KS á Sauðárkróki, í Eymundsson/Penninn, hjá Forlaginu og útgefanda.

Fleiri fréttir