Al Gore á veiðum í Vatnsdalsá

Í forsíðu Morgunblaðsins í gær var greint frá því að samkvæmt heimildum blaðsins hefði Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels, verið á veiðum í Vatnsdalsá á dögunum.

Al Gore mun einnig hafa tekið þátt í fundi sem haldinn er árlega á staðnum, en á fundinum var rætt um sjálfbæra þróun og bætta nýtingu á auðlindum heimsins. Það er William McDonough sem býður jafnan til fundarins en hann er frægur arkitekt og kunnur fyrir vistvænar byggingar víða um heim og ráðgjöf um sjálfbærni. Hann er annar höfunda frægrar bókar um þetta efni, Cradle to Cradle.

Þátttakendur koma í Vatnsdalinn til að funda í rólegheitum, um leið og þeir njóti þess að veiða lax og silung í Vatnsdalsá, stunda útreiðar og gönguferðir í íslenskri náttúru. Síðasta áratug hefur William stefnt saman í Vatnsdal áhugaverðum hópi gesta; kunnum uppfinningamönnum, framsæknum hönnuðum, viðskiptajöfrum og vísindamönnum. Bandaríska Óskarsverðlaunaleikkonan Susan Sarandon var til dæmis meðal gestanna í fyrra.

Fleiri fréttir