Allir lesa í 20 mínútur á dag
Í Árskóla á Sauðárkróki stendur nú yfir allsherjarlestrarátak. Allir nemendur skólans lesa í 20 mínútur á dag, bækur að eigin vali. Markmiðið er að auka lestrarfærni og lesskilning. Einnig er hluti af verkefninu að fara á bókasafnið og velja sér bækur við hæfi, bæði hvað varðar þyngd lesefnis og áhugasvið. Nemendur halda svo skráningu um þær bækur sem lokið er við að lesa.
Feykir leit inn í kennslustund hjá 4. bekk í vikunni. Þar mátti nánast heyra saumnál detta þar sem allir 40 nemendur árgangsins sátu prúðir í sætum sínum og lásu í áhugaverðum bókum. Umsjónarkennarar þeirra sögðu ekki komna reynslu á árangurinn þar sem stutt væri liðið á skólaárið, en það lofaði góðu og nemendur sýndu lestrinum áhuga og væru iðnir við hann.