Allir vinir á veginum
Í síðasta mánuði lauk Gunnhildur Ólafsdóttir 900 km göngu sinni eftir Jakobsveginum á Spáni og segir hún ferðalagið hafa verið einstaka upplifun og mikið ævintýri frá upphafi til enda. Hún gekk í gegnum borgir og bæi, ógrynni af fallegu landslagi og hitti yndislegt fólk frá nær öllum heimsálfum.
„Þú ert stanslaust að rekast á ný andlit en einnig sömu andlitin aftur og þótti mér sérlega skemmtilegt hvernig þessi vegur býður upp á það að þú hittir fólk kannski í upphafi eða við miðbik ferðar, sérð það svo ekki svo dögum skiptir en svo situr það viku síðar við hlið þér á kaffihúsi. Maður verður alltaf jafn undrandi en það vekur einnig upp hjá manni hlýju. Og manni verður það svo ljóst að á veginum eru allir vinir að ganga sama veginn - en samt hver sinn eigin veg með sínar ólíku ástæður. Allir með sameiginlegt markmið, að komast á leiðarenda,“ segir Gunnhildur.
Hún bætir við að andinn á veginum sé gríðarlega góður og að náin tengsl geti myndast auðveldlega á örstuttum tíma. Allir hjálpast að og styðja við hvern annan, sem geti reynst ómetanlegt þegar dagarnir verða krefjandi.
„Ég hitti endalaust mikið af yndislegu fólki. Margar persónur sem höfðu áhrif á mig á einhvern hátt eða höfðu áhugaverða sögu. Ég hitti t.d. 75 ára gamlan mann frá Kanada sem var að ganga veginn í annað sinn, hann hafði gengið á síðasta ári en þá ferjað dótið sitt tvisvar með bíl og tekið taxa einu sinni eða tvisvar, hann var því kominn aftur til að „ganga þetta rétt“,“ en í þetta skiptið segir hún að hann hafi borið allt sitt á bakinu alla leiðina og gengið hvert einasta skref.
Feykir fékk að heyra alla sólarsöguna og má lesa hana í Feyki sem kom út í dag. Þar segir hún frá erfiðum dögum og auðveldum, og hvernig hver dagur bauð upp á upplifanir og reynslu sem Gunnhildur segir að muni fylgja henni allt lífið.