Alls brautskráðust 124 nemendur frá FNV í gær

Glæsilegur hópur brautskráningarnema ásamt stjórnendum skólans. MYND: PIB
Glæsilegur hópur brautskráningarnema ásamt stjórnendum skólans. MYND: PIB

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 45. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki föstudaginn 24. maí 2024 að viðstöddu fjölmenni. Alls brautskráðust 124 nemendur af eftirtöldum námsbrautum en alls voru gefin út 151 prófskírteini:

Í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 3222 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. Hún fjallaði m.a. um það fjölbreytta námsframboð sem skólinn býður upp á. Hún greindi frá fjölgun nemenda, einkum iðn- og starfsgreinum og nýjar námsbrautir þ.á.m. í matvælagreinum og nám í viðhaldi gamalla húsa og súðbyrtra báta, það síðarefnda í samvinnu við Síldarminjasafnið á Siglufirði. Þá fjallaði hún um stoðkerfi skólans og gat þess að á skólaárinu hafi verið unnið að innleiðingu leiðsagnarmats. Loks gat hún þess að samþykkt hefur verið að stækka verknámshús skólans um 1.400 fm.

Kristján Bjarni Halldórsson, áfangastjóri, flutti vetrarannál skólans þar sem stiklað var á stóru í starfsemi hans. Á haustönn voru skráðir 741 nemendur og á vorönn voru þeir 698. Nemendur stunduðu námið í dagskóla, helgarnámi, dreifnámi eða fjarnámi. Á haustönn 2023 störfuðu 66 starfsmenn í 57 stöðugildum við skólann og á vorönn 2024 störfuðu 68 starfsmenn í 57 stöðugildum. Kristján greindi frá starfsemi einstakra deilda og rakti helstu viðburði þ.á.m. viðburði sem tengjast alþjóðasamtarfi.

Þá kom fram að félagslífið hefur verið öflugt og drifið áfram af metnaðarfullu nemendaráði. Leikritið Með allt á hreinu var sett á svið og naut mikilla vinsælda. Loks varð Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir sigurvegari í Söngkeppni framhaldsskólanna.

Að loknum vetrarannál fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara.

  • Félagsvísindabraut: 11
  • Fjölgreinabraut: 17
  • Hestabraut: 2
  • Húsasmíðabraut: 17
  • Íþróttaakademía: 7
  • Kvikmyndabraut: 4
  • Meistaranám iðngreina: 10
  • Náttúruvísindabraut: 10
  • Trefjaplastsmíði: 1
  • Rafvirkjun: 16
  • Sjúkraliðabrú: 4
  • Sjúkraliðabraut: 14
  • Starfsbraut: 2
  • Stúdentsbraut starfsnáms: 15
  • Vélstjórnarbraut A: 11
  • Vélstjórnarbraut B: 4
  • Vélvirkjun: 6

Lydía Einarsdóttir og Jóel Agnarsson fluttu ávarp fyrir hönd brautskráðra nemenda og Kristín Sigurrós Einarsdóttir flutti ávarp nemenda sem brautskráðust fyrir 30 árum síðan. Þau Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir og Jóel Agnarsson sáu um tónlistarflutning við brautskráninguna.

Í kveðjuorðum skólameistara til brautskráðra nemenda lagði hún út af einkunnarorðum skólans sem eru vinnusemi, virðing og vellíðan. Hún hvatti nemendur til tileinka sér þau lífsgildi sem í þeim felast og umgangast aðra af virðingu. Þá óskaði hún þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Hér að neðan má sjá myndir sem Pétur Ingi og Óli Arnar tóku fyrir og við athöfnina.

Á netsíðu FNV er farið yfir hvaða nemendur voru verðlaunaðir >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir