Alltaf gaman þegar það er viðurkennt sem maður gerir

Jón Steinbjörnsson, til hægri á myndinni, tekur við viðurkenningu fyrir lífsstarf sitt í Þýskalandi sem hann hlaut á meistaramóti íslenska hestsins sem haldið var þarlendis í síðasta mánuði. Með honum á myndinni er Peter Nagel forseti IPZV, samtaka Íslandshesta í Þýskalandi, og Ulla Gomis-Fliss, formaður svæðisfélags Berlínar og Brandenborgar. Mynd af FB.
Jón Steinbjörnsson, til hægri á myndinni, tekur við viðurkenningu fyrir lífsstarf sitt í Þýskalandi sem hann hlaut á meistaramóti íslenska hestsins sem haldið var þarlendis í síðasta mánuði. Með honum á myndinni er Peter Nagel forseti IPZV, samtaka Íslandshesta í Þýskalandi, og Ulla Gomis-Fliss, formaður svæðisfélags Berlínar og Brandenborgar. Mynd af FB.

Fyrir um mánuði síðan fór þýska meistaramótið í hestaíþróttum fram þar sem mikið var um dýrðir. Í fyrsta sinn veitti þýska landssambandið IPZV viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu hestamennsku bæði í ræktun og útbreiðslu íslenska hestsins og allt sem því viðkemur og kom hún í hlut Skagfirðingsins Jóns Steinbjörnssonar frá Hafsteinsstöðum. Feykir hafði samband við Jón, eða Nonna eins og hann er oftast kallaður, og forvitnaðist um þennan verðskuldaða heiður.

Jón segir að líkt og á Íslandi séu veittar viðurkenningar á hverju ári, fyrir besta hestinn, besta ræktunarhrossið, besta knapann o.s.frv. en nú í fyrsta skiptið sem þessi viðurkenning sé veitt.

Segist hann mjög ánægður og þakklátur fyrir heiðurinn og mjög ánægjulegt að fá þessa viðurkenningu enda alltaf gaman þegar það sé viðurkennt sem maður gerir og þykir gott en hann hefur lifað og hrærst í hrossum alla sína tíð en til Þýskalands flutti hann árið 1984.

„Ég byrjaði á því að vinna hjá öðrum, kannski í tvö ár, áður en ég kom mér upp mínum eigin stað. Ég var töluvert lengi í Norður-Þýskalandi, milli Hamborgar og Hannover en flutti svo hingað árið 2002. Núna er ég mjög stutt frá Berlín,“ segir Jón.

Kosturinn við núverandi staðsetningu segir hann vera meiri landgæði og á skikkanlegu verði enda þarf starfsemin á Faxabóli, Islandpferdehof Faxabol, þó nokkurt landrými.

„Hér eru ansi mörg hross, bæði fyrir okkur og svo erum við með hross í geymslu fyrir aðra líka. Við erum með á milli 50 og 60 reiðhross, þar sem fólk kemur og ríður út en við sjáum alveg um hrossin. Auk þess erum við með 40-50 hross í uppeldi og folaldsmerar og allt mögulegt, sem er þá á útigangi. Þannig að það er nóg að gera,“ segir Jón sem telur að á búinu séu um 250 hross.

Hann segist fá á bilinu 15 til 20 folöld á ári hverju og öll frambærileg og því til sönnunar átti hann fjögur bestu folöldin sem sýnd voru meðal 200 annarra í Brandenborg- og Berlínarfylkinu, tvö bestu merfolöldin og tvö bestu hestfolöldin. Hann segir þann árangur vera hluta í þeirri viðurkenningu sem honum hlotnaðist á meistaramótinu, hrossarækt, kynning og markaðssetning íslenska hestsins.

Covid lítið að trufla
Þrátt fyrir að Covid-19 heimsfaraldurinn hafi herjað á hinn vestræna heim rúmt hálft ár segir Jón það lítið hafa haft áhrif á starfsemi Faxabóls. „Í vor hættum við með námskeið þar sem við tókum enga í reiðkennslu sem ekki voru með hestana sína hjá okkur. Að öðru leyti hefur maður ekki orðið svo mikið var við þetta hér úti á landi. Maður verður reyndar að setja á sig grímu þegar farið er í búð að versla inn og svona. En svo er þetta í vexti núna og verið að herða allar reglur aftur,“ segir Jón en þegar Feykir ræddi við hann í síðustu viku hafði smitum snarfjölgað dagana á undan.

Hann segir þó ástandið mun betra þar sem hann býr en víða annars staðar. „Það var nú svo skrítið með það í vor að þá bjóst maður við því að sala á hrossum myndi detta alveg niður en það var alveg öfugt. Það fór allt í fullan gang og hefur ekki verið svona gott í mörg, mörg ár. Það var alls staðar svoleiðis. Það hefur líklega átt sinn þátt í því að fólk hafði mikinn tíma og komst ekki í dýrar utanlandsferðir eða aðrar skemmtiferðir svo fólk gat sett peningana í eitthvað annað. Það eru sumir sem fara betur út úr þessu en aðrir,“ sagði Jón í lok samtalsins.

Feykir óskar Nonna og fjölskyldu til hamingju með glæsilegan árangur í starfsemi Faxabóls í Þýskalandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir