„Alltaf verið draumur okkar að fara út í sjálfboðastarf“
„Við vorum í mánuð úti í þetta skiptið. Það er erfitt að segja hvernig en þetta hefur breytt sýn okkar á lífið, maður lærir að meta það sem maður hefur mikið betur. Bara að fá að sjá og kynnast þessum krökkum - allri gleðinni í kringum þau, sífellt dansandi og syngjandi, það gefur svo mikið,“ sögðu þær Tanja Rán Einarsdóttir og Eva Dís Gunnarsdóttir þegar þær deildu reynslu sinni af sjálfboðastarfi í Kenýu með blaðamanni Feykis.
Í Naíróbí gistu þær hjá Þórunni Helgadóttur, framkvæmdastjóra ABC barnahjálpar í Kenýu, og eiginmanni hennar, Samuel Lusiru Gona (Samma). Þórunn flutti til Kenýu árið 2006 og opnaði þá skólann sem þau hjónin hafa rekið alla tíð síðan. Eva og Tanja segja frá því þegar þær hittu krakkana í skólanum í fyrsta sinn.
Eva og Tanja sögðu krakkana elska að láta taka myndir af sér. Ljósm./úr einkasafni.
„Sú upplifun var rosaleg og engan veginn eins og við bjuggumst við. Við keyrðum að hverfi sem var byggt bárujárnskofum. Skólinn var afgirtur með bárujárnsplötum og þegar við löbbuðum inn fyrir sáum við bara bárujárnshús, en það var heimavistin. Skólinn sjálfur var ókláruð bygging og einungis búið að byggja eina hæð af fimm,“ útskýrir Tanja.
„Það var tekið á móti okkur með dansi og söng og allir krakkarnir svo ánægðir og stoltir af skólanum sínum. Þau voru einnig rosa stolt af kojunum en oftast deila tveir til þrír saman einu rúmi. Það var rosa mikið sjokk að sjá þetta með eigin augum,“ bætir Eva við.
Neyðina segja þær mikla í Kenýu og minnast ítrekað krakkanna sem þær hittu í Naírobí og Loitokitok. „Sögurnar frá krökkunum sem við fengum að kynnast eru mjög slæmar - verstu aðstæður sem er hægt að hugsa sér að lenda í og var maður oft bókstaflega orðlaus þegar þau voru að tala við mann,“ segir Eva og Tanja tekur í sama streng.
Eva Dís og Tanja Rán deila reynslu sinni af ferðinni til Kenýu í mars sl. í opnuviðtali Feykis sem kemur út í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.