Almannavarnir gáfu grænt ljós á leikinn

Leikið í galtómu og sótthreinsuðu Síki. MYND: HJALTI ÁRNA
Leikið í galtómu og sótthreinsuðu Síki. MYND: HJALTI ÁRNA

Talsverðar umræður sköpuðust á samfélagsmiðlum í kjölfar körfuboltaleiksins sem fram fór í Síkinu síðastliðið mánuudagskvöld. Voru margir hneykslaðir, sárir og svekktir og sumir jafnvel reiðir yfir því að leikurinn hafi farið fram þrátt fyrir að samfélagið í Skagafirði væri hálf lamað og í lás sökum Covid-19 hópsmits. Fólki fannst þetta óábyrgt og beindist ergelsið að KKÍ og jafnvel Tindastól. Samkvæmt upplýsingum Feykis var ákvörðun um að leikurinn færi fram tekin í samráði við Almannavarnir daginn fyrir leik og var allra mögulegra varúðarráðstafana gætt.

Um leið og reglur voru hertar í Skagafirði um helgina kom fram að íþróttaæfingar og keppni yngri flokka yrði stöðvuð en æfingar og leikir meistaraflokka ekki. Fram kom í viðtali við Baldur Þór Ragnarsson, þjálfara Stólanna, að allir leikmenn Tindastóls-liðsins hefðu sloppið viðí sóttkví. Þar er til dæmis ólíku saman að jafna við fótboltaliðin á Króknum en leikjum þeirra var frestað enda voru leikmenn kvenna- og karlaliðsins komnir í skimunarsóttkví um helgina vegna tenginga við fólk sem mögulega var smitað. Öll þau sýni reyndust sem betur fer neikvæð.

Leikurinn gegn Stjörnunni var liður í síðustu umferð deildarkeppninnar og þá ber að spila alla leikina á sama tíma til að gæta jafnræðis. Það hefði því sjálfsagt þurft að fresta öllum leikjunum ef þessum leik hefði verið frestað. Hefðu Almannavarnir ekki treyst því að hægt yrði að framfylgja öllum varúðarráðstöfunum hefði leikurinn ekki farið fram.

Feykir hafði samband við Ingólf Jón Geirsson, formann körfuknattleiksdeildar Tindastóls, og að hans sögn beið KKÍ eins og lið Tindastóls eftir grænu ljósi frá Almannavörnum. Staðfesting fékkst frá Almannavörnum kvöldið fyrir leik og því fór lokaumferðin fram. „Leikurinn var settur á með samþykki Almannavarna, [spilaður] fyrir luktum dyrum og með lágmarksmannskap í húsi. Skil vel pirring í okkar fallega samfélagi fyrir að allt sé lokað en einhverjir vitleysingar að leika sér í boltaleik en þetta var síðasti leikur í deild, spilaður með leyfi Almannavarna og allar sóttvarnareglur virtar til fullnustu. Íþróttahúsið var lokað og sótthreinsað fyrir og eftir leik og allar persónulegar sóttvarnir virtar og nýttar,“ segir Ingó.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir