Alor lýkur 100 milljón króna fjármögnun

Frá vinstri: Ómar Tryggvason og Sigurgeir Tryggvason fulltrúar Summu Rekstrarfélags, Linda Fanney Valgeirsdóttir framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor, Magnús Hafliðason framkvæmdastjóri N1 og Valgeir Þorvaldsson stjórnarformaður og stofnandi Alor. MYND AÐSEND
Frá vinstri: Ómar Tryggvason og Sigurgeir Tryggvason fulltrúar Summu Rekstrarfélags, Linda Fanney Valgeirsdóttir framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor, Magnús Hafliðason framkvæmdastjóri N1 og Valgeir Þorvaldsson stjórnarformaður og stofnandi Alor. MYND AÐSEND

Alor hefur lokið sínu fyrsta hlutafjárútboði þar sem félagið sótti 100 milljónir króna frá fjárfestum. Fjármagnið verður m.a. nýtt til þess að hraða innleiðingu stærri sólarorkuverkefna á Íslandi og efla vöruþróun orkugeymslna úr notuðum rafbílarafhlöðum. Alor hefur þegar sett upp fimm sólarorkukerfi í fjórum landshlutum og frumgerðir rafhlöðuorkugeymslna hafa verið útbúnar og samstarf með fyrstu viðskiptavinum lofar góðu.

Nýir hluthafar í félaginu eru N1 ehf., innviðafjárfestasjóður á vegum Summu Rekstrarfélags hf., einkafjárfestarnir Ásgeir Þorvarðarson í gegnum félag sitt Ás-Pack ehf. og Óðinn Ásgeirsson. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Alor. 

Tækifæri til nýtingar sólarorkulausna á Íslandi aukast sífellt með bættri tækni og skapast því nýir möguleikar til rafmagnsframleiðslu víða um land, þar sem rafmagn er framleitt nálægt notkunarstað og í sumum tilvikum selt inn á orkukerfið. Við hjá N1 sjáum mikil tækifæri í fjárfestingu í Alor sem er leiðandi á þessu sviði. Jafnframt er ljóst að orkugeymslur skipta lykilmáli, og í okkar rekstri sjáum við umtalsverð tækifæri til að þróa hagkvæmari lausnir, m.a. með endurnýtingu rafhlaðna úr notuðum rafbílum”, segir Magnús Hafliðason, forstjóri N1.

Á næstu 15 árum þarf að tvöfalda rafmagnsframleiðslu á Íslandi til þess að ná orkuskiptum í takt við markmið. Sérfræðingum ber saman um að framleiðsla sólarorku og geymsla rafmagns muni gegna lykilhlutverki í orkuskiptunum en sólarorka er á meðal ódýrustu virkjunakosta í heimi. Með vönduðum sólarsellum er nú hægt að framleiða sólarorku við lægri birtuskilyrði en áður sem hentar íslenskum aðstæðum.

„Það var markmið okkar í fjármögnunarlotunni að fá blöndu af strategískum fjárfestum og einkafjárfestum sem vilja leggja hönd á plóg og ryðja brautina með okkur. Það tókst svo sannarlega og við finnum strax hversu dýrmætt er að fá þessa öflugu aðila í okkar lið. Við munum efla dreifða orkuframleiðslu á Íslandi auk þess að gera bændum, fyrirtækjum og opinberum aðilum kleift að verða virkir notendur sem framleiða sólarorku í eigin þágu og selja umframorku inn á netið. Við ætlum okkur stóra hluti og með þessa aðila í liðinu er ég full bjartsýni að við komumst þangað sem við ætlum okkur”, segir Linda Fanney Valgeirsdóttir framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor.

Sigurgeir Tryggvason, framkvæmdastjóri Summu rekstrarfélags, segir það spennandi verkefni að taka þátt í fyrirhuguðum vexti Alor.
„Við hjá Summu fylgjumst vel með þróun orkumála á Íslandi og á heimsvísu þ.m.t. á sviði framleiðslu og geymslu sólarorku. Alþjóðlega Orkumálastofnunin (IEA) áætlar að sólarorka verði stærsti endurnýjanlegi orkugjafi heims árið 2029 og við teljum mikilvægt að Ísland taki þátt í þeirri þróun og grípi þau tækifæri sem hún skapar. IEA hefur einnig gefið út að orkugeymslur sé og verði mikilvæg tækni fyrir orkuskipti, nauðsynleg til að samþætta breytilega endurnýjanlega orku eins og sólar- og vindorku, styðja við stöðugleika raforkukerfa og mæta vaxandi eftirspurn eftir rafmagni. Við sjáum mikil tækifæri í að taka þátt í vexti Alor enda eru sólarorka og orkugeymslur mikilvægir þættir í uppbyggingu og styrkingu orkuinnviða landsins.”, segir Sigurgeir.



Fleiri fréttir