Ályktun SSNV um heilbrigðisþjónustu

Eins og fram hefur komið í Feyki og hér á vefnum var 22. ársþing SSNV haldið á Hvammstanga 16.-17. október 2014. Ýmsar ályktanir voru samþykktar á þinginu og verða þeim gerð skil hér á vefnum næstu daga. Ein af ályktunum sem samþykktar voru á þinginu sneri að heilbrigðisþjónustu.

Var ítrekað að hafa bæri sjónarmið heimafólks að leiðarljósi þegar kemur að ákvörðunum um skipulag og framkvæmd heilbrigðisþjónustu í héraði. „Þingið lýsir vonbrigðum og óánægju með þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið þegar teknar hafa verið stórar ákvarðanir um breytingar eða niðurskurð heilbrigðisþjónustu á svæðinu.

Skorað er á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að standa vörð um þá heilbrigðisþjónustu sem nú er veitt á Norðurlandi vestra og byggja upp nauðsynlega og stöðuga grunnþjónustu eftir langvarandi niðurskurð. Óásættanlegt er að þjónustan verði skert meira en orðið er og sú óvissa sem ríkt hefur um þjónustuna og framkvæmd hennar er ekki boðleg. Slíkt skaðar búsetuöryggi og lífsgæði á svæðinu,“ segir í ályktun þingsins.

Fleiri fréttir