Ámundakinn kaupir fasteign Húnabókhalds

Blönduós. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.
Blönduós. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.

Nýlega var undirritaður kaupsamningur milli Húnabókhalds ehf. og Ámundakinnar ehf. um kaup þess síðarnefnda á húsnæði Húnabókhalds á Húnabraut 13, Blönduósi. Um er að ræða 167 fermetra skrifstofurými með tilheyrandi starfsmannaaðstöðu, sem var afhent nýjum eiganda þann 1. mars síðastliðinn. Þá tók jafnframt gildi leigusamningur, þar sem KPMG ehf. leigir þetta húsnæði til langs tíma af Ámundakinn.

„Þessir gjörningar koma til í kjölfar þess að Rannveig Lena Gísladóttir, eigandi Húnabókhalds ehf. seldi KPMG ehf. rekstur og innbú Húnabókhalds og var samningur þess efnis undirritaður í lok febrúar og KPMG tók við rekstrinum þann 1. mars síðastliðinn,“ segir Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóri Ámundakinnar.

„Húnabókhald hefur um árabil verið öflugt og vaxandi bókhaldsfyrirtæki sem hefur byggst upp hér á Blönduósi og þjónað einstaklingum og fyrirtækjum, fyrst og fremst á Húnaflóasvæðinu. Fastráðnir starfsmenn eru fimm og býðst þeim öllum áframhaldandi vinna hjá nýjum eigendum.“

Jóhannes segir kaupin á húsnæðinu og leigu vera í samræmi við þá meginstefnu Ámundakinnar, um að efla og treysta atvinnulíf á starfssvæði félagsins, með því að bjóða fyrirtækjum hagstæða vist í húsnæði félagsins. „Hér skulu eigendum og starfsfólki Húnabókhalds færðar þakkir fyrir góða þjónustu á undarförnum árum. Þá er ánægjulegt að KPMG ehf. sjái sér hag í að hasla sér völl hér á svæðinu og bjóðum við þá velkomna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir