Ámundakinn opnar nýtt hús á Blönduósi

Laugardaginn 6. október, var nýtt þjónustuhús fyrir mjólkursöfnun í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum tekið formlega í notkun að Hnjúkabyggð 34. Jón Gíslason flutti tölu fyrir hönd stjórnar Ámundakinnar og fór yfir starfsemi Ámundakinnar en hlutverk og markmið Ámundakinnar er m.a. að byggja og leigja út atvinnuhúsnæði til atvinnustarfsemi á svæðinu. Ámundakinn á húsnæði á Skagaströnd, Blönduósi, Hvammstanga og Sauðárkróki.

Næst tók Jóhannes Torfason framkvæmdastjóri Ámundakinnar við og fór yfir ferlið frá upphafi. Um miðjan febrúar 2017 undirrituðu Ámundakinn, Auðhumla, KS og MS viljayfirlýsingu um byggingu á nýju þjónustuhúsi og leigu til langs tíma. Markmið byggingarinnar var að bæta vinnuaðstöðu bílstjóra og aðstöðuna fyrir bílanna sjálfa. Fullyrða má að þessi ákvörðun er hluti af þeirri samfélagsstefnu sem er og á að vera mikilvægur þáttur í starfi þessara aðila.

Stjórnendur Ámundakinnar hófust þegar handa um hönnun og að tryggja peninga til framkvæmda. Samið var við Verkfræðistofuna Stoð á Sauðárkróki um hönnun að undanskyldu rafmagni og loftræsingu, einnig um eftirlit. Magnús Ingvarsson er aðalhönnuður. Þá var samið við Faxatorg á Sauðárkróki um byggingastjórn. Að undangengnu útboði var samið við Landsbankann á Sauðárkróki um 100% fjármögnun á öllum framkvæmdum

Húsið  er 561 fermetri að grunnfleti, með rúmlega 5 metra lofthæð. Í húsinu má finna tvö rúmgóð búningsherbergi með baði, kaffistofa og skrifstofa og tvö hvíldarherbergi með baði. Framkvæmdakostnaður var um 190 mkr.

Nokkrar tafir urðu á afhendingu lóðar m.a. vegna þess að lóð sem fyrst var úthlutað hentaði ekki og einnig vegna óska Ámundakinnar um staðsetningu hússins á lóðinni. Fyrsta skóflustungan  var tekin 23. júní 2017.

Samið var við Trésmiðjuna Stíganda sem aðalverktaka og hefur Guðmundur Sigurjónsson verið byggingameistari. Það eru um og  yfir eitthundrað manns sem hafa komið að þessari framkvæmd með einhverjum hætti

Öllu þessu fólki var þakkað fyrir góð samskipti og gott handverk og var ánægjulegt að heyra umsagnir utanaðkomandi aðila, sem bera lof á frágang allan. Fram kom í máli Jóhannesar að  stundum hafi verið næðingur og kuldi í vetur meðan húsið var að rísa.

Að lokum þakkaði Jóhannes fyrir að engin alvarleg slys urðu á fólki á byggingartímanum, því mörg verk sem þar voru unnin voru ekki hættulaus.                              

Magnús Guðmundsson og Ari Edwald tóku svo við lyklunum frá Jóhannesi. Ari fór yfir að viss hagræðing væri falin í þessu og að mjólkurflutningar KS væru felldir undir MS.

Að lokum var samsöngur um Bjössa á mjólkurbílnum, staðfærð að bílstjórum MS og boðið var upp á veitingar.

Tónlistaratriði voru í höndum Skarphéðins H. Einarssonar og Benedikts Blöndal Lárussonar.

Myndir og texti/Lee Ann

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir