Amy Fingerle varði meistararitgerð

Síðastliðinn föstudag varði Amy Fingerle meistararitgerð sína í sjávar- og vatnalíffræði við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum. Ritgerð hennar ber heitið: „Effect of population density on diel activity and growth in stream-dwelling Arctic charr Salvelinus alpinus“, sem útleggst á íslensku: „Áhrif þéttleika á dægursveiflur í virkni og vöxt bleikju Salvelinus alpinus í ám“.

Amy vann verkefnið unnið undir leiðsögn dr. Stefáns Óla Steingrímssonar, dósents við Hólaskóla. Dr. Sveinn Kári Valdimarsson frá Landsvirkjun var í meistaraprófsnefnd hennar og dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum var prófdómari. Prófessor Bjarni Kristófer Kristjánsson, deildarstjóri fiskeldis- og fiskalíffræðideildar stýrði vörninni.

Á vef Hólaskóla segir að Amy hafi flutt framúrskarandi fyrirlestur og staðið mjög vel við vörn ritgerðarinnar, sem samþykkt var án breytinga. Í rannsóknarverkefni sínu, sem framkvæmt var í Deildará í Deildardal, sýndi Amy m.a. fram á að við háan stofnþéttleika eyða bleikjuseiði lengri tíma við fæðunám á hverjum sólarhring en þegar færri fiskar eru til staðar.

Þá var virkni seiðanna háð öðrum vistfræðilegum þáttum en þéttleika. Þannig voru fiskarnir virkari við fæðunám þegar vatnshiti jókst og meira vatn var í ánni, en úr því dró með aukinni birtu, sem endurspeglaðist í því að fiskarnir voru virkari að næturlagi en við dagsbirtu.

 

Fleiri fréttir