Arnar Björns valinn í lokahóp Íslands fyrir EuroBasket
EuroBasket 2025, Evrópukeppnin í körfuknattleik, er að skella á en Ísland leikur í Póllandi í sínum riðli og hefur leik fimmtudaginn 28. ágúst. Í dag var íslenski landsliðshópurinn kynntur til sögunnar en liðið hefur æft stíft síðustu vikurnar og nú er búið að tálga utan af hópnum. Það er gleðilegt að einn Tindastólsmaður er í landsliðshópnum því Arnar Björnsson verður með á EuroBasket og full ástæða til að óska okkar manni til hamingju!
Riðlakeppnin spilast frá 28.ágúst og lýkur fimmtudaginn 4.september, 16 liða úrslitin og það sem eftir verður móts fer fram í Riga í Lettlandi og úrslitaleikur mótsins verður sunnudaginn 14. september. Í riðli Íslands eru einnig lið Frakklands, Slóveníu, Póllands, Belgíu og Ísrael.
Síðasti æfingaleikurinn fyrir mót verður spilaður í Litháen á fimmtudaginn og verður hann sýndur í beinni útsendingu á RÚV.
Í fréttatilkynningu frá KKÍ segir að EuroBasket verða gerð góð skil á miðlum RÚV bæði hér heima og í Póllandi. Stofan verður með upphitun fyrir og eftir alla leiki Íslands og alls verða 40 leikir í beinni útsendingu. Auk leikja í riðlakeppni þá verða allir leikir frá 16-liða úrslitum í beinni á RÚV og RÚV2.
Leikmenn Íslands:
Elvar Már Friðriksson – Marousso, Grikkland – 78
Haukur Helgi Pálsson – Álftanes – 79
Hilmar Smári Henningsson – Stjarnan – 24
Jón Axel Guðmundsson – Burgos, Spáni – 39
Kári Jónsson – Valur – 39
Kristinn Pálsson – Valur – 41
Martin Hermannsson – Alba Berlin, Þýskaland – 81
Orri Gunnarsson – Stjarnan – 15
Styrmir Snær Þrastarson – Belfius-Mons, Belgía – 24
Sigtryggur Arnar Björnsson – Tindastóll – 41
Tryggvi Hlinason – Bilbao, Spánn – 73
Ægir Þór Steinarsson – Stjarnan - 95
Rétt er að benda á að tölurnar fyrir aftan nöfn leikmanna og félagslið vísa ekki í aldur leikmanna heldur landsleikjafjölda.
Landsliðsþjálfari er sem fyrr Craig Pedersen en aðstoðarþjálfarar hans eru Baldur Þór Ragnarsson, fyrrum þjálfari Tindastóls og tengdasonur Skagafjarðar, og Viðar Örn Hafsteinsson sem hefur þjálfar lið Hattar Egilsstöðum svo lengi sem elstu menn muna. Liðinu fylgir stór hópur aðstoðarfólks sem sinnir bæði líkamlegum og andlegum þáttum og alls kyns aðrir reddarar og forsvarsmenn.
Einn þeirra leikmanna sem missir af vélinni til Póllands er Vesturbæingurinn Almar Atlason sem er mikið efni, enda skagfirskur í báðar ættir og því gjörsamlega sprungulaus. Til að allt fari nú fram samkvæmt settum reglum og fallegu fordæmi þá mun Varmhlíðingurinn Rúnar Birgir Gíslason vera að störfum á vegum FIBA Europe sem eftirlitsmaður en hann mun starfa í riðlinum sem verður spilaður í Tampere í Finnlandi.
Allar upplýsingar um EuroBasket má finna hérns:https://www.fiba.basketball/en/events/fiba-eurobasket-2025