Ársfundur Norðurstrandarleiðar

Ársfundur Norðurstrandarleiðar – Arctic Coast Way var haldinn á Dalvík í síðustu viku. Á fundinum kynntu verkefnastjórarnir Christiane Stadler og Katrín Harðardóttir verkefnið og það starf sem unnið hefur verið á undanförnum misserum ásamt því að segja frá því sem framundan er.

Á vef Markaðsstofu Norðurlands þar sem sagt er frá ársfundinum kemur fram að áhugi erlendra fjölmiðla á Norðurstrandarleið hafi verið mikill, ekki síst eftir að leiðin komst á lista Lonely Planet yfir áhugaverðustu staði Evrópu til að heimsækja.

Á fundinum fóru fulltrúar nokkurra samstarfsfyrirtækja yfir sína reynslu af þátttöku í verkefninu hingað til og hvernig þeir nýta verkfærakistuna (tool kit) til þess að aðlaga sitt markaðsefni. Að kynningum loknum var fundargestum skipt í hópa þar sem fundarmenn sögðu frá sérstöðu síns fyrirtækis. Kom þar oftar en ekki í ljós að fyrirtækin bjóða upp á einstakar upplifanir sem verða þróaðar áfram í og tengdar við Norðurstrandarleið, enda eru upplifanir lykilþáttur í því sem einkennir leiðina. Hópavinnan skilaði sér líka í því að fólk lærði um staði utan sinna nærsvæða og kynntist því þannig betur hvað er í boði á leiðinni, til að kynna fyrir sínum gestum.

Nánar má lesa um fundinn á vef Markaðsstofu Norðurlands, northiceland.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir