Árskóli verður móðurskóli vinaliðaverkefnisins á Íslandi
Árskóli á Sauðárkróki verður móðurskóli vinaliðaverkefnisins en um tuttugu grunnskólar víðs vegar um landið taka nú þátt í verkefninu og hafa margir aðrir skólar lýst yfir áhuga á því. Á vef Árskóla segir að nú sé komið að því að Árskóli taki alfarið við umsjón verkefnisins hérlendis og munu eigendur verkefnisins í Noregi afhenda það með formlegum hætti í sal Íþróttamiðstöðvar ÍSÍ á morgun.
„Vinaliðaverkefnið hefur slegið í gegn í norskum skólum. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan nemenda í skólum. Verkefnið hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu í Noregi og er nú starfrækt í yfir 1000 skólum þar í landi,“ segir um verkefnið.
Á morgun, miðvikudaginn 19. nóvember kl. 15.00-16.00, verður örráðstefna um einelti og vellíðan nemenda í skólum í sal Íþróttamiðstöðvar ÍSÍ. Þá munu eigendur verkefnisins í Noregi afhenda það með formlegum hætti. Jafnframt fer fram kynning á verkefninu.
Helstu markmið Vinaliðaverkefnisins eru:
I. Að stuðla að fjölbreyttari leikjum í löngufrímínútum skólanna.
II. Að leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum.
III. Að minnka togstreitu milli nemenda.
IV. Að hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.
Í tilefni af því býður Árskóli til örráðstefnu þar sem fram fer kynning á verkefninu, auk þess sem sérfræðingar á sviði uppeldismála munu halda stutt erindi.
Dagskrá:
- Tommy og Kjartan frá norskum eigendum verkefnisins, Trivselsprogramm, segja frá verkefninu.
- Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Menntavísindasvið HÍ, mun ræða um mikilvægi leiðtogaþjálfunar nemenda gegn einelti.
- Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, umsjónarkennari og verkefnastjóri Vinaliðaverkefnisins í Hólabrekkuskóla segir frá reynslu skólans af verkefninu.
- Vinaliðar í Árskóla segja frá og sýna svipmyndir úr starfi Vinaliða.