Ásbjörn Óttarsson til forystu

Framundan er prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Ísland er á tímamótum, viðfangsefnin umfangsmikil og miklu máli skiptir hvernig tekst til um val á forystumönnum þjóðarinnar. Framundan eru verkefni sem kalla á vaskar hendur, heiðarleika og yfirsýn.

Ásbjörn Óttarsson frá Hellissandi býður sig fram í 1-2. sæti í Norðvesturkjördæmi . Orðspor af vöskum pilti utan af Hellissandi barst okkur strákunum í Ólafsvík löngu áður en ég kynntist manninum. Þetta var Ásbjörn Óttarson eða Ási eins og hann er kallaður. Þarna var á ferðinni glettinn og áræðinn gutti, fylginn sér og hamhleypa til verka.

Fyrir utan að sækja sjóinn stíft og reka útgerð af hörku vestast á Snæfellsnesi, hefur Ásbjörn verið afar farsæll  fulltrúi í bæjarstjórn Snæfellsbæjar í fjögur kjörtímabil, lengst af oddviti Sjálfstæðisflokksins og forseti bæjarstjórnar. Þrátt fyrir gríðarlega erfiðar ytri aðstæður, sem snert hefur flestar sjávarbyggðir um land allt,  hefur Snæfellsbær haldið ákveðnu frumkvæði, staðið fyrir uppbyggingu og hafnaði nýverið í 2. sæti á lista íslenskra draumasveitarfélaga. Með öðrum orðum er Snæfellsbær annað fýsilegasta sveitarfélag á landinu til búsetu.

Þjóðin þarf á heiðarlegum vinnuforkum að halda í þeim viðfangsefnum sem framundan eru. Dagar víns og rósa eru liðnir og verða fjarri um hríð.  Hér er hreinskiptinn frambjóðandi með báðar fætur á jörðinni sem segir skoðanir sínar hispurslaust og lætur verkin tala. Kjósum Ásbjörn Óttarsson í 1. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi.

 

Vífill Karlsson, hagfræðingur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir