Ástandið með öllu óboðlegt
Á fundi sveitarstjórnar Húnavatnshrepps sem haldinn var sl. föstudag, þann 13. desember, var lögð fram bókun þar sem lýst er yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp kom í Húnavatnssýslum og víðar á landinu í óveðrinu sem geisaði í síðustu viku.
„Það er óviðunandi, að í kjölfar óveðurs skuli þúsundir manna verða án rafmagns og hita sólarhringum saman, auk þess að njóta bágborinna fjarskipta og upplýsinga um hvað endurbótum og lagfæringum liði,“ segir í bókun sveitarstjórnar. „Ekki er boðlegt að stefna hundruðum manna út í mannskaðaveður, með tilheyrandi hættu, til að ráðast í lagfæringar á innviðum sem hefðu þegar átt að vera búið að byggja upp með því öryggi sem tilheyrir.“
Skorar sveitarstjórn á stjórnvöld að fara rækilega ofan í atburði liðinna daga. Þá sé nauðsynlegt að ráðast tafarlaust í stórfellt átak til uppbyggingar raforku- og fjarskiptainnviða í Húnavatnssýslum og í fleiri landshlutum sem nái til allra sveita og bæjar landsins. Það ástand sem enn vari í mörgum byggðalögum landsins sé óboðlegt með öllu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.