Átak til að efla byggð á Hofsósi

Við höfnina á Hofsósi. Mynd:FE
Við höfnina á Hofsósi. Mynd:FE

Á fundi byggðaráðs Skagafjarðar í síðustu viku var lögð fram og samþykkt tillaga þess efnis að hleypt skuli af stað atvinnuþróunarátaki á Hofsósi til að fjölga þar atvinnutækifærum og efla byggð. Í tillögunni er einnig lagt til að sveitarfélagið beiti sér fyrir að sérstökum byggðakvóta verði úthlutað til Hofsóss til að leitast við að tryggja áframhaldandi smábátaútgerð á staðnum.

Flutningsmenn tillögunnar eru þeir Bjarni Jónsson, VG og óháðum, og Sigurjón Þórðarson, K lista. Í samtali við fréttastofu RUV á mánudag segir Bjarni að á síðustu árum hafi kvótinn smám saman verið tekinn af Hofsósi. Einnig hafi afnám á banni við dragnótaveiðum í innanverðum Skagafirði síðastliðið haust skapað alvarlega stöðu en eins og kunnugt er ákvað Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að opna svæðið á ný fyrir dragnótaveiði. Segir Bjarni að nú séu miðin ónýt fyrir smábátasjómönnum. „Uppistaðan voru litlir bátar, en þeir sem hafa verið að reka þessa þjónustu eru að hætta starfsemi, meðal annars út af kvótaleysi og verkefnaleysi,“ segir Bjarni.

Bjarni bendir einnig á að þrátt fyrir að sótt hafi verið um aðstoð til Byggðasofnunar til að styðja við Hofsós hafi það engum árangri skilað. „Við sóttum um fyrir Hofsós en höfum aldrei fengið neitt. Í fyrsta sinn sem við sóttum um, fyrir fjórum eða fimm árum, taldi Byggðastofnun að hlutirnir væru bara í góðum málum,“ segir Bjarni. Staðan hafi hins vegar versnað, fólki fækkað og íbúar að eldast. Í fyrra bjuggu 146 manns á Hofsósi samkvæmt tölum Hagstofunnar og fækkað um 40 frá árinu 2011. „Mér finnst ótrúlegt hvað Hofsós hefur gleymst, það hefur ekki verið talað nógu sterkt fyrir Hofsósi á meðan það hefur verið talað duglega fyrir þessum stöðum sem hafa fengið aðstoð,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu RUV

Þá telur Bjarni að yfirvöld í Skagafirði hafi mátt vera betur vakandi yfir velferð þorpsins. Nefnir hann sem dæmi að enn hafi ekki verið lokið við að deiliskipuleggja Hofsós og því hægt að úthluta lóðum þar. Bjarni segir að þetta þurfi að laga og bendir einnig á þann möguleika að veita þeim fyrirtækjum ívilnanir sem vildu hefja starfsemi á Hofsósi.

Tillöguna í heild sinni og greinagerð með henni má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir