Atburðir á aðventu í Húnaþingi vestra í dag
Það er ævinlega mikið um að vera á aðventunni, í Húnaþingi vestra, sem og annars staðar. Í dag mun Kór eldri borgara syngja í Nestúni á Hvammstanga, 10. bekkingar halda kökubasar og loks verður aðventuhátíð í Staðarkirkju í Hrútafirði í kvöld.
Kór eldri borgara syngur ásamt einsöngvurum í Nestúni og hefjast tónleikarnir kl. 15:00. Að tónleikum loknum er boðið upp á veislukaffi. Kórstjóri er Ólafur E. Rúnarsson og undirleikari Elínborg Sigurgeirsdóttir. Aðgangseyrir er 2.000 kr. en frítt er fyrir 12 ára og yngri.
Nemendur í 10. bekk Grunnskóla Húnaþings vestra verða með kökubasar í anddyri Fæðingarorlofssjóðs. Basarinn hefst kl. 15:00 og stendur á meðan birgðir endast. Er kökubasarinn er liður í fjáröflun fyrir skólaferðalag bekkjarins næstkomandi vor.
Aðventuhátíð verður í Staðarkirkju í kvöld, kl. 20:30. Þar mun Kirkjukór Prestbakka- og Staðarsókna syngja undir stjórn Elínborgar Sigurgeirsdóttur. Um einsöng sér Hildur Þór Haraldsdóttir, Borðeyri. Auk þess verður saga fyrir börnin, nemendur tónlistarskólans koma fram, börnin í Borðeyrarskóla syngja um aðventuljósið, stúlknahópur úr grunnskólanum flytur jólalag og fermingarbörn flytja ritningarvers aðventunnar. Ræðumaður kvöldsins verður Gunnar Sæmundsson í Hrútatungu. Að athöfn lokinni býður kirkjukórinn í samveru og veitingar í Staðarflöt.