Átta ár frá því að Dreifarinn komst í fréttirnar

Margt hefur verið brallað á Feyki.is frá því að vefurinn dúkkaði upp haustið 2008. Til að mynda var strax ákveðið að vera með pínu djók þar sem spilað væri með lesendur vefsins og kallaðist sá þáttur Dreifarinn – að öllum líkindum með vísan í Dreifbýlisliðið. Búnar voru til platfréttir, oft í stuttu viðtalsformi, sem forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur gefið nafnið Fake News. Dreifurum var fyrst laumað inn á milli frétta á Feykir.is og átti fólk stundum erfitt með að átta sig á að hér væri um grín að ræða, enda er góð lygasaga stundum of góð til að trúa henni ekki.

Þannig komst Dreifarinn í fréttirnar á landsvísu fyrir átta árum síðan eða á kjördag 31. maí 2010. Ríkisútvarpið var með það sem eina aðalfrétt í hádeginu þann dag að Geir Gunnarsson á Sauðárkróki hefði lent í því fyrr um morguninn að setja tossalista frá eiginkonunni í kjörkassann í stað atkvæðaseðilsins sem hann fékk þegar hann nýtti kosningarétt sinn. Hann hefði ekki uppgötvað mistökin fyrr en hann stóð með kjörseðilinn í höndunum inni í Hlíðarkaupi. Fréttin, sem sögð var tekin upp úr Feyki.is, vakti strax mikla athygli og víðast hvar gat fólk hlegið að óheppilegum mistökum Geirs.

Fjölmiðlar fóru vitanlega að kanna málið og það kom fljótlega upp úr dúrnum að þrátt fyrir að í fréttinni/Dreifararnum væri sagt að Geir hefði farið aftur á kjörstað, til að biðja starfsmenn kjörnefndar að opna kassann með atkvæðunum svo hann gæti fundið innkaupaseðilinn, þá kannaðist enginn á staðnum við þetta sérkennilega mál. Þegar í ljós kom að fréttinn var uppspuni, enda bjó enginn Geir Gunnarsson á Króknum, þá þótti nú ekki öllum grínið fyndið lengur og krafðist m.a. starfsmaður kjörnefndar að fréttin yrði fjarlægð af Feyki. Flestir höfðu þó gaman að þessu saklausa gríni.

Fljótlega eftir þetta þótti þó rétt að sérmerkja grínið þegar þessum Fake News var laumað inn á Feyki svo fleiri fréttastofur hlypu ekki á sig. Þess má geta að það voru stríðnispúkarnir Guðný Jóhannesdóttir ritstjóri og Kalli Jóns, hennar ektamaður, sem sömdu Dreifarana fyrstu árin en aðrir starfsmenn útgefanda Feykis tóku við keflinu þegar þau brugðu búi.

Hægt er að skoða alla Dreifara Feykis frá upphafi með því að smella hér eða á Dreifarar á forsíðu Feykis. Ósagt skal látið hvort Dreifarar teljist gott afþreyingarefni en stundum hafa spunnist ágætar umræður um innihald þeirra og eru þessi skilaboð lesanda í uppáhaldi hjá núverandi höfundum: „Guð minn góður, afhverju las ég þetta?“

Fréttin góða >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir