Átti viðkomu í Sauðárkrókshöfn tveim dögum fyrir strandið

Flutningaskipið Samskip Akrafell, sem strandaði á skeri við Vattarnes á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar sl.  laugardag, átti viðkomu í Sauðárkrókshöfn á fimmtudagsmorgun þar sem það lestaði vörur til útflutnings en skipið kemur við í höfninni á tveggja vikna fresti. 

Samkvæmt Gunnari Steingrímssyni hafnaverði Skagafjarðarhafna var þar um að ræða frosnar afurðir frá FISK Seafood, einnig skreið, steinull og endurvinnanlegar umbúðir frá Flokku ásamt einhverju öðru. Þá var einnig skipað upp ýmiskonar varningi sem og tómum frystigámum fyrir FISK Seafood. Frá því að strandflutningar hófust fyrir um 17 mánuðum hafa að jafnaði farið um 1.000 tonn á mánuði frá höfninni með þessu skipi.

Við strandið kom mikill leki að skipinu sem er  99,95 m langt en 12 manns voru um borð í skipinu. Mikill viðbúnaður fór í gang þegar tilkynnt var um lekann en samkvæmt vef Landsbjargar störfuðu hátt í 60 björgunarsveitarmenn á eða við strandstað á laugardag, þar sem þeir aðstoðuðu m.a. við dælingu úr skipinu, að koma fyrir mengunarvörnum og viðgerðavinnu. Skipið var dregið að höfn í Eskifirði aðfaranótt sunnudags og þar verður unnið að því að meta tjón en ekki er ljóst hvað olli strandinu.

Fleiri fréttir