Aukasýningar á Beint í æð

Aðsókn að Sæluvikustykki Leikfélags Sauðárkróks, Beint í æð,  hefur verið góð enda um sprellfjörugan farsa að ræða. Aukasýningar verða annað kvöld, þriðjudagskvöld, klukkan 20:00 og á miðvikudagskvöld á sama tíma.

Miðapantanir eru í síma 849 9434 og miðaverð kr. 3000. Hópar, eldri borgarar og öryrkjar kr. 2500.

Leikgagnrýni - Sæluvikan Beint í æð!
@Hrafnhildur Viðarsdóttir
Fyrri sunnudagur í Sæluviku Skagafjarðar er runninn sitt skeið og venju samkvæmt var sæluvikustykki leikfélagsins frumsýnt. Þéttsetið var og eftirvæntingin mikil á meðan áhorfendur biðu eftir að sýningin byrjaði, á meðan Leoncie raulaði munúðarfullt um hann Viktor sinn í bakgrunnstónlist.

Loks slokknuðu ljósin í salnum á meðan kastararnir á sviðinu lýstu upp Guðbrand J. Guðbrandsson í hlutverki Jóns Borgars, yfirlæknis á taugadeild Landakotsspítala. Ekki liðu margar mínútur frá því fyrsta setning var borin fram þangað til farsafléttan fór að þéttast. Það sem byrjaði sem einn mikilvægasti dagur í lífi Jóns Borgars breyttist mjög fljótt í skrýtnasta, versta og taugatrekktasta dag þessa ágæta taugalæknis þar sem gamlar hjásvæfur skjóta upp kollinum, yfirlæknir Landakots sjússar sig síendurtekið, eiginkonan er óþarflega afskiptasöm, yfirhjúkkan verður fyrir skakkaföllum og svo mætti lengi telja. Þýðing Gísla Rúnars yfir á hið ylhýra er frábær og til dæmis verða til gegnumgangandi stórkostlega skemmtilegir brandarar í kringum nöfn læknanna og orðaleik tengdan þeim.

Leikararnir standa sig meira og minna frábærlega! Valin manneskja er í hverju hlutverki, og halda allir vel dampi í gegnum leikritið. Allir skiluðu sínu á stórskemmtilegan hátt og enginn veikur hlekkur var í leikaravalinu, en þó voru nokkrir sem stóðu uppúr með stjörnuleik!

Saga Sjöfn er frábær í hlutverki Díönu og er hrein dásemd að fylgjast með þegar Díana þarf að „feika“ hádramatíska tilburði. Jóhannes Friðrik Ingimundarson kemur skemmtilega á óvart í hlutverki Frímanns og vonandi er þetta ekki síðasta stykki sem þessi ungi og skemmtilegi leikari tekur þátt í. Vignir Kjartans á frábær móment á sviðinu sem hinn geðstirði Páll Óskar yfirlæknir, og systurnar Sigríður Margrét og Inga Dóra Ingimarsdætur eru báðar stórkostlega skemmtilegar í sínum hlutverkum.

En það sem stendur algjörlega uppúr – að öllum öðrum ólöstuðum – er stórkostlega kómíska „leikaradúóið“ Guðbrandur J. Guðbrandsson og Haukur Skúlason! Þessir tveir eru púslið sem fullkomnar sýninguna og þeir eru svo stórkostlega fyndnir saman að salurinn engist um af hlátri hvað eftir annað! Haukur er stórkostlega skemmtilegur sem einfaldi, krúttlegi og grunlausi læknirinn Grettir Sig og á meðan salurinn veltist um af hlátri nær hann að vinna sér inn meðaumkun allra yfir flækjunni sem hann óvart og óumbeðið verður þungamiðjan í. Guðbrandur sýnir líka gamalkunna snilldartakta og er algjör dásemd að fylgjast með honum í hlutverki Jóns Borgars reyna að halda öllum kómísku boltunum á lofti með misjöfnum en stórskemmtilegum árangri.

Það getur ekki verið auðvelt að setja upp leikrit, hvað þá farsa eins og þennan þar sem allt þarf að ganga vel, hratt og snurðulaust fyrir sig svo dæmið gangi upp og verði fyndið. Jóel Sæmundssyni tekst listavel upp með leikstjórn og er það svo mörgum sinnum í gegnum sýninguna sem brandari öðlast meira vægi og verður helmingi fyndnari, eða meira verður úr atriði en ella vegna kómískra smáatriða. Þetta sýnir það að Jóel hefur legið vel yfir verkinu og gefur manni þá tilfinningu að hann hafi fyrirfram vitað nákvæmlega hvað hann ætlaði að fá út úr leikurunum.

Sæluvikustykki Leikfélags Sauðárkróks þetta árið er einfaldlega stórkostlegt! Ég brá undir mig betri fætinum, smellti mér í sparigallann og setti á mig maskara en því hefði ég betur getað sleppt! Nánast á fyrstu mínútu byrjaði ég að hlæja, og hló nánast sleitulaust út sýninguna. Maskarann grét ég af mér í hláturköstunum löngu fyrir hlé og er ég enn með strengi í maganum eftir sýninguna!

Ef þú lesandi góður ætlar þér að mæta á aðeins einn menningarviðburð þessa sæluvikuna, láttu það vera leikritið Beint í æð í uppsetningu Leikfélags Sauðárkróks, þú munt ekki sjá eftir því!

Takk fyrir skemmtunina!

Áður birst í 17. tbl. Feykis

Tengdar fréttir:
Beint í æð í Bifröst
Engin sýning í dag!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir